Handbolti - Sigurður Bragason, vonast eftir góðri mætingu í kvöld

05.apr.2005  11:48
Ég trúi því að fólk sýni okkur frekar stuðning en einhverjum miljarðarmæringum í Englandi.
Við höfum fengið Sigurð Bragason fyrirliða karlaliðsins í stutt spjall í tilefni leiks okkar drengja við Fram í 8 liða úrslitum DHL deildarinnar í kvöld kl. 19:15.  Það er gríðarlega mikilvægt fyrir strákana að sigra í kvöld og við þurfum að veita þeim allan okkar stuðning til að svo verði.
 
Jæja Siggi, þá er stóra stundin runnin upp, hvernig leggst leikurinn í þig í kvöld? Hann leggst mjög vel í mig, maður er búin að bíða spenntur eftir þessari úrslitakeppni og nú er komið að því.

En hvað með Fram eru þeir ekki sýnd veiði en ekki gefin? Það eru öll lið í úrslitakeppninni sýnd veiði en ekki gefin, við verðum að koma vel stemmdir í þennan leik því annars getur farið illa. Ég vil benda á að eini leikurinn sem við töpuðum eftir áramót (fyrir utan bikar) var hér heima gegn þór Ak. og þeir lentu neðstir í deildinni. Ef við komum hins vegar klárir í þennan leik og tilbúnir að berjast þá eiga þeir ekki séns í okkur.

Hvernig er stemmingin í hópnum þessa dagana? Frábær, ég held að við séum að toppa á réttum tíma, bæði handboltalega sem og stemmningslega. Mórallinn hefur ekki verið svona góður síðan í upphafi móts, enda gaman þegar vel gengur.

Ætlið þið að leggja þennan leik eitthvað sérstaklega upp? Það verður löggð áhersla á vörn og aftur vörn!!! Meira vil ég ekki gefa upp.

Skiptir stuðningur áhorfenda máli? Ef ég á að vera hreinskilin þá tel ég hana skipta höfuðmáli fyrir okkur í þessari úrslitakeppni. Áhorfendur ERU okkar 8 maður, þetta er ekki einhver gömul lumma. Það er ótrúlegur munur að hlaupa inn á völl þar sem eru 100 áhorfendur eða 300, liðið fer í allt annan gír.

Hefurðu trú að fólk mæti á leikinn í kvöld? Það er nú einhver lélegur fótboltaleikur í imbanum, en ég trúi því að fólk sýni okkur frekar stuðning en einhverjum miljarðarmæringum í Englandi. Við biðjum um stuðning!!!!