Handbolti - Lykillinn að sigri er góður stuðningur áhorfenda

04.apr.2005  14:21
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV býst við erfiðri rimmu gegn Fram 
Á morgun, þriðjudag, hefst úrslitakeppni karla í handbolta en þar mæta Eyjamenn 1. deildarmeisturum Fram.  Safamýrarliðið var í baráttu við Þór frá Akureyri um sæti í efri deild en þegar upp var staðið munaði tveimur stigum á liðunum og því léku Framarar í neðri deild eftir áramót.  Þar töpuðu þeir aðeins tveimur leikjum og enduðu að lokum í efsta sæti neðri deildar, rétt eins og ÍBV á síðasta tímabili.
 
“Mér líst bara nokkuð vel á að mæta Fram í 8 liða úrslitum.  Þeir eru með góða blöndu af leikmönnum, enga stráklinga heldur menn á besta aldri og svo reynslubolta inn á milli eins og t.d. Hjálmar Vilhjálmsson og markmanninn Egidijus Petkevicius, sem spilaði með KA,” sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV þegar Fréttir slógu á þráðinn til hans.
 
“Við horfðum á úrslitaleik 1. deildar á milli FH og Fram og ég gat ekki betur séð en að Framarar væru með mjög gott lið.  Þeir spiluðu í þessum leik 3-2-1 vörn og mér skilst að þeir spili mikið framliggjandi vörn.  Þetta eru snöggir strákar, léttleikandi og það er alveg á tæru að við verðum að vera á tánum ef við ætlum áfram.  Svo ber ég mikla virðingu fyrir Heimi Ríkharðssyni, þjálfara þeirra.  Hann er örugglega búinn að liggja yfir okkar leikjum og telur sig sjálfsagt hafa fundið veikleika í okkar leik.  Ég lít þannig á það að ef við ætlum að komast áfram í undanúrslit þá verðum við virkilega að vera á tánum í næstu viku.”
 
Erlingur bætir því svo við að ef árangur eigi að nást þá þurfa Eyjamenn að fjölmenna á leikina.  “Það reikna allir með því að við förum áfram.  En ef Framarar ætla sér að komast í undanúrslit þá þurfa þeir að vinna okkur í Eyjum og þeir ætla sér sjálfsagt að koma á óvart í fyrsta leik.  Lykillinn að sigri er að fá fullt hús af fólki á þessa leiki og að við náum að stýra hraðanum, leika á okkar hraða.  Ef það gengur eftir þá eigum við að hafa þetta,” sagði Erlingur að lokum.
 
Tekið úr vikublaðinu Fréttum.