Handbolti - Stelpurnar lögðu Víking að velli 30-27

31.mar.2005  23:20

Á Halli TV má sjá viðtöl     ÍBV lagði Víking að velli í kvöld í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins.  Eins og áður hefur komið fram tefldi ÍBV fram vængbrotnu liði, Florentina Grecu markvörðurinn sterki gat t.d. ekkert leikið með liðinu og aðrir leikmenn voru aðeins skugginn af sjálfum sér.  Leikurinn varð fyrir vikið mjög spennandi og um tíma í fyrri hálfleik náðu Víkingar sex marka forystu, breyttu stöðunni úr 10:9 í 10:16.

En Eyjastúlkur náðu að minnka muninn niður í þrjú mörk fyrir leikhlé og í síðari hálfleik var allt annað að sjá til liðsins.  Alla Gokorian tók til sinna ráða, raðaði inn mörkunum og undir lokin höfðu Eyjastúlkur leikinn í hendi sér.  Lokatölur urðu 30:27 og hefur ÍBV því tekið forystuna í viðureigninni.

Fyrirliði ÍBV, Elísa Sigurðardóttir skoraði mikilvæg mörk fyrir ÍBV í kvöld en hún sagði í samtali við Eyjafréttir að leikurinn hefði verið afar erfiður.  "Við vorum að gera mörg tæknileg mistök, slakar sendingar og nýttum illa dauðafærin.  Fyrir vikið fengu þær mikið af hraðaupphlaupum, sérstaklega á slæma kaflanum í fyrri hálfleik sem þær nýttu mjög vel.  Það var svo mjög mikilvægt fyrir okkur að minnka muninn í þrjú mörk fyrir hálfleik því þá var það ekki svo óraunhæft að jafna leikinn."

En þið voru ekki að leika vel í kvöld.

"Nei alls ekki.  En þegar þú ert kominn út í úrslitakeppnina þá skiptir ekki máli hvernig þú vinnur leikina, sigur er alltaf sigur.  Auðvitað hefðum við viljað hafa þetta öruggara en við gerðum okkur þetta erfitt fyrir og því fór sem fór.  En nú þurfum við bara að nýta tímann vel, hvílast og taka svo útileikinn.  Það gæti reynst okkur vel að klára þetta í tveimur leikjum þar sem við eigum í talsverðum meiðslum og veikindum og þurfum í rauninni smá frí," sagði Elísa að lokum.

Mörk ÍBV: Alla Gorkorian 12/5, Anastasia Patsiou 6, Guðbjörg Guðmannsdóttir 4, Ingibjörg Jónsdóttir 3, Elísa Sigurðardóttir 2, Tatjana Zukovska 1, Eva B. Hlöðversdóttir 1, Edda Eggertsdóttir 1. 

Varin skot: Vigdís Sigurðardóttir 16.

Markahæstar í liði Víkings voru þær Margrét Elín Egilsdóttir sem gerði 10 mörk og Ásta Björk Agnarsdóttir var með sjö mörk.
 
 
 
“Það er lítið hægt að segja eftir þennan leik en ég er fyrst og fremst bara mjög feginn að við náðum að vinna þennan leik. Í rauninni áttum við það ekki skilið og vorum að spila illa þar sem varnarleikurinn var mjög slakur. Við erum í bölvuðu basli meiðslalega og það er mikilvægt að við klárum þessa rimmu á laugardaginn í Víkinni svo stelpurnar geti fengið smá tíma til að jafna sig,” sagði Alfreð Finnsson, þjálfari ÍBV, eftir leikinn.
 
Tekið af www.eyjar.net
 
Á Halli TV undir viðtöl má sjá viðtöl sem tekin voru við Elísu og Önnu Kristínu úr Víkingi  eftir leikinn.