"Viðureign ÍBV og Víkings verður mjög athyglisverð og þó að fólk geri kannski almennt ráð fyrir að ÍBV fari létt í gegnum þetta er ég viss um að það verður ekki auðvelt. Það hafa verið brotalamir í Eyjaliðinu í vetur og mér finnst lið Víkings hafa verið vaxandi undanfarið. Það er allt annað að sjá til liðsins síðan það fékk nýjan þjálfara og þar með er ég ekki að segja að það hafi verið Óskari að kenna að liðið var að ströggla, heldur virkar það oft sem vítamínsprauta á lið þegar nýr þjálfari tekur við. Þess vegna ætla ég að gerast svo djarfur að spá Víkingi sigri í fyrsta leiknum. Þetta verður hörkurimma og þó að Víkingur vinni fyrsta leikinn er ekki þar með sagt að liðið vinni seríuna, en þetta verður mjög jafnt," segir Erlendur.
"Ég ætla að tippa á að FH-stúlkur vinni fyrsta leikinn við Val, því ég held að þær hafi ekki tapað síðan þær fengu nýjan þjálfara og þær eru mjög erfiðar í Kaplakrika. Það er eins hjá þeim og hjá Víkingi að þær eru orðnar miklu hressari með nýjan þjálfara í brúnni. Það er gífurleg stemmning í hópnum hjá þeim og þær eru að mínu mati með öllu sterkari mannskap. Eins og staða liðanna í deildinni gefur til kynna eru þetta mjög áþekk lið. Valsliðið hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku og misst mikið af leikmönnum í vetur, en það er engu að síður töggur í þessum stelpum og þær unnu okkur í Stjörnunni hér í Ásgarði í síðustu umferðinni í deildinni. Ég hallast engu að síður að því að FH fari áfram úr þessu einvígi 2-1," sagði Erlendur Ísfeld. Leikir kvöldsins hefjast báðir klukkan 19.15.
Tekið af www.visir.is