Meiðslum hrjáð kvennalið þarf stuðning
Alfreð Finnsson, þjálfari ÍBV segir Víkinga sýnd veiði en ekki gefin
Úrslitakeppni kvenna hefst í kvöld þegar ÍBV tekur á móti Víking í átta liða úrslitum. Eyjastúlkur enduðu í öðru sæti í deildinni og eru því með heimaleikjarétt í átta liða úrslitum. Það reikna því flestir með að ÍBV eigi greiða leið í undanúrslit en liðin mættust þrívegis í deildarkeppninni í vetur, tvívegis í Eyjum en í öll skiptin stóðu Eyjastúlkur uppi sem sigurvegari og 23 mörk í plús eftir leikina þrjá.
Alfreð Finnsson, þjálfari ÍBV sagði að þrátt fyrir að ÍBV hafi gengið vel með Víking fram að þessu þá sé ekki á vísan að róa í þeim efnum. Vissulega erum við með sterkara lið á pappírnum en Víkingur er þannig lið að þú veist aldrei hvar þú hefur þær. Þær skiptu um þjálfara í vetur og unnu í kjölfarið Val nokkuð sannfærandi. Í þeirra herbúðum eru reynslumiklir leikmenn, stelpur sem kunna handbolta og hafa verið lengi í þessu og auk þess er einn besti útlendingur deildarinnar í þeirra herbúðum, Natasa Damiljanovic. Þannig að við komum ekkert til með að vanmeta Víking, þær eru sýnd veiði en ekki gefin.
Talsverð meiðsli hafa verið að hrjá ÍBV liðið að undanförnu og sér ekkert fyrir endann á því. Alfreð segir að það riðli einmitt mjög undirbúningnum fyrir úrslitakeppnina. Undanfarið höfum við verið tíu á æfingum og með einn markmann. Florentina Grecu er tognuð í læri og verður að öllum líkindum ekki með í fyrsta leiknum gegn Víking. Þá er Darinka Stefanovic tæp í bakinu og Tanja Zukovska meidd í ökkla og auk þess veik þessa dagana. Það er auðvitað mjög slæmt ef engin af þeim getur spilað en við komum til með að leysa það, sagði Alfreð sem hvatti Eyjamenn til að styðja við bakið á stelpunum enda er virkilega þörf á stuðning þessa dagana.
Úr vikublaðinu Fréttir.