Handbolti - Öruggt gegn Fram í dag

12.mar.2005  19:53
Eyjastúlkur tóku á móti Fram í DHL deild kvenna en Fram-liðið situr í neðsta sæti deildarinnar enda leikmenn liðsins mjög ungir að árum.  Búist var við frekar auðveldum sigri ÍBV en Framstúlkur komu verulega á óvart, börðust eins og ljón og voru lengst af inni í leiknum.  En leikmenn ÍBV tóku leikinn í hendur sér um miðjan síðari hálfleik, Ingibjörg Jónsdóttir stýrði vörninni sem herforingi og í kjölfarið komu hraðaupphlaupin.  Lokatölur urðu 27:17 fyrir ÍBV, tíu marka sigur og ljóst að ÍBV og Haukar leika úrslitaleik um deildarmeistarartitilinn um næstu helgi.

Staðan í deildinni er nú þannig að Haukar eru efst með 36 stig og ÍBV í öðru sæti með 34.  Liðin mætast á Ásvöllum næstkomandi laugardag en Haukum dugir jafntefli úr leiknum til að hampa deildarmeistaratitlinum.  Ef Eyjastúlkur vinna hins vegar leikinn, er deildarmeistaratitillinn þeirra, þó að liðin séu jöfn því ÍBV hefur þannig haft betur úr innbyrðisviðureignum liðanna í vetur.  Það er því ljóst að það verður allt lagt í sölurnar næstkomandi laugardag.

Mörk ÍBV: Darinka Stefanovic 9, Ingibjörg Jónsdóttir 5, Guðbjörg Guðmannsdóttir 4, Anastasia Patsiou 4, Alla Gorkorian 2, Sæunn Magnúsdóttir 1, Eva Hlöðversdóttir 1, Ester Óskarsdóttir 1. 

Varin skot: Florentina Grecu 22/2.

Frétt af www.eyjafrettir.is
Sjá sjónvarpsviðtöl við Ester, Hildi og Ingibjörgu á Halli tíví.