Eyjamenn komust upp í þriðja sæti DHL deildarinnar í dag með því að leggja KA af velli í frábærum leik. Leikmenn ÍBV voru með leikinn lengst af í hendi sér, náðu fljótlega tveggja marka forystu en staðan í hálfleik var 17:13 fyrir ÍBV.
Eyjamenn náðu svo sjö marka forystu 23:16 en þá breyttu gestirnir um varnaraðferð og þá riðlaðist sóknarleikur ÍBV gjörsamlega. Í kjölfarið komu sex mörk í röð hjá KA og munurinn allt í einu kominn niður í eitt mark. En lengra komust þeir ekki, leikmenn ÍBV bættu aftur í og unnu að lokum átta marka sigur, 36:28.
Eyjamenn hafa nú unnið fjóra leiki í röð og ljóst að liðið er á réttri leið fyrir úrslitakeppnina. Erfitt er að taka nokkurn leikmann út úr liði ÍBV eftir leikinn, allir lögðu sitt á vogaskálarnar og fyrir vikið er ÍBV eitt af sterkustu liðum deildarinnar. Á meðan allir leggjast á eitt verða Eyjamenn illviðráðanlegir.
ÍBV á nú eftir einn leik í deildarkeppninni, hann fer fram næstkomandi laugardag þegar ÍBV sækir HK heim. Staðan er nú þannig að Haukar eru efstir með sautján stig, þá koma ÍR-ingar með sextán, ÍBV með fimmtán og HK og Valur með fjórtán. Möguleikar ÍBV á deildarmeistaratitlinum eru úr sögunni þar sem Haukar og ÍR mætast í lokaumferðinni en þá er einnig alveg ljóst að sigur gegn HK tryggir liðinu annað sætið í deildinni.
Mörk ÍBV: Svavar Vignisson 10, Tite Kalanaze 7, Robert Bognar 6, Sigurður A. Stefánsson 4, Grétar Eyþórsson 3, Davíð Óskarsson 3/1, Zoltan Belanyi 2, Samúel Í. Árnason 1/1.
Frétt tekin af www.eyjafrettir.is
Sjá sjónvarpsviðtöl við Svavar vignisson og Jónatan Magnússon á Halli tíví.