Handbolti - Strákarnir okkar unnu góðan sigur á HK

02.mar.2005  23:26
Strákarnir okkar unnu í kvöld góðan sigur á toppliði HK með 31 marki gegn 26.  Strákarnir höfðu yfirhöndina mest allan leikinn en jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en okkar drengir höfðu samt sem áður alltaf yfirhöndina, þetta 1-2 mörk og leiddu síðan í hálfleik 12-10.  Okkar strákar keyrðu síðan yfir HK í byrjun seinni hálfleik og náðu mest níu marka forystu 29-20.  Eftir það var ekki spurning hvor sigurinn mundi lenda og náðu okkar strákar að landa góðum sigri á HK.
 
Það sem skóp þennan sigur öðru fremur var að drengirnir okkar spiluðu alveg glimrandi vörn með Jóa frábæran í markinu.  Þá voru okkar menn skynsamir í uppbyggingu sókna og gáfu sér tíma og létu boltann ganga í sókninni og reyndu að opna fyrir hvor öðrum. 
 
Með þeirri baráttu sem liðið sýndi í dag verður gaman að fá Hauka í heimsókn, en við verðum að muna að ef stemmingin, neistinn og baráttan verða ekki til staðar þá verður ekki gaman að fá Hauka í heimsókn á laugardaginn.  Valið er okkar!
 
Allir leikmenn voru að skila sínu og það var liðsheildin sem skóp þennan sigur.  Samt sem áður langar mig að geta góðrar framistöðu hans Grétars Eyþórssonar sem spilaði skynsamlega í sókninni og stóð sig frábærlega í vörninni.  Hann er að uppskera það að hafa lagt mikið á sig undanfarnar vikur við æfingar og verður ef hann heldur áfram á SÖMU BRAUT einn besti hornamaður landsins innan fárra ára.
 
 
"Jóhann Ingi Guðmundsson hefur staðið í markinu í síðustu þremur leikjum ÍBV liðsins og annan leikinn í röð ver hann yfir tuttugu skot.  Margir höfðu áhyggjur af brotthvarfi Rolands Eradze en Jóhann hefur endanlega þaggað niður í þeim áhyggjuröddum með frammistöðu sinni í kvöld. 
Í samtali við eyjafrettir.is eftir leikinn sagði Jóhann að sigurinn væri kærkominn.  "Við vorum ákveðnir í að rífa okkur upp eftir Þórsleikinn og komast af botninum." 
"Ég átti reyndar von á HK mun grimmari í þessum leik, þeir reyndar börðust eins og ljón en það vantaði eitthvað í þeirra leik.  Við vorum reyndar að spila mjög vel gegn þeim, varnarleikurinn gekk fullkomlega upp og í kjölfarið kemur markvarslan," segir Jóhann hógvær. 
"Við ætluðum að halda leiknum niðri, spila á okkar hraða og það gekk upp.  Við spiluðum langar sóknir, biðum eftir góðum skotum og sóknarleikurinn gekk mjög vel í kvöld.  Það má eiginlega segja að við höfum klárað þetta á fyrsta korterinu í síðari hálfleik, þá vorum við komnir 7-8 mörkum yfir og þeir voru nánast hættir.  En við erum ekkert hættir.  Nú ætlum við bara að safna liði og taka vel á móti Haukum á laugardaginn."
Hefur þessi sigur ekki góð áhrif á sjálfstraustið í liðinu?
"Jú ekki spurning, þetta er það sem okkur vantaði.  Nú verður andinn í liðinu mun betri, bæði í leikjum og á æfingum og sjálfstraustið kemur í kjölfarið," sagði Jóhann að lokum."
Viðtal tekið af www.eyjafrettir.is
 
Mörk ÍBV skoruðu:
Tite Kalandadze 10, Robert Bognar 7, Svavar Vignisson 6, Samúel Ívar Árnason 4/1, Sigurður Ari Stefánsson 3 og Grétar Eyþórsson 1.
 
Jóhann Ingi Guðmundsson stóð sig frábærlega í markinu og varði 21 skot þar af 2 víti og Þorgils Orri Jónsson kom inn á undir lok leiks og varði 2 skot.
 
Mörk HK skoruðu:
Augustas Strazdas 5, Tomas Eitutis 5, Elías Már Halldórsson 5, Ólafur Víðir Ólafsson 5, Karl Grönvold 2, Ragnar Ægisson 1, Valdimar Þórsson 1, Baldur Þór Halldórsson 1 og Hákon Hermannsson Bridde 1.