Það er ekki annað hægt að segja en að síðasta helgi hafi verið viðburðarík hjá 4.flokki kvenna. Þrír erfiðir leikir í 3.umferð Íslandsmótsins og síðan söguleg sjóferð með Herjólfi.
Fyrsti leikurinn var gegn Stjörnunni og hófst hann 30 mínútum eftir að stelpurnar voru komnar í hús. Það þarf ekki að fjölyrða um þennan leik, stelpurnar voru ekki tilbúnar og Stjarnan átti ekki erfiðleikum með okkar stelpur og endaði leikurinn 24-10 Stjörnustúlkum í vil. Þessar skoruðu mörkin, Anna María Halldórsdóttir 3, Nína Björk Gísladóttir 3, Lovísa Jóhannsdóttir 2, Bylgja Haraldsdóttir og Þóra Sif Kristinsdóttir 1.
Næst var komið að leik við Hauka og byrjuðu okkar stelpur mjög vel, enda búnar að jafna sig eftir ferðalagið um morguninn. Staðan í hálfleik var 8-5 ÍBV í vil. Stelpurnar náðu ekki alveg að halda dampi í seinni hálfleik og endaði leikurinn með jafntefli 15-15. Þær sem skoruðu mörkun voru: Anna María Halldórsdóttir og Þóra Sif Kristinsdóttir 4 mörk, Bylgja Haraldsdóttir, Sara Dögg Guðjónsdóttir og Nína Björk Gísladóttir 2 mörk og Lovísa Jóhannsdóttir 1.
Um kvöldið var svo farið í diskókeilu þar sem að hópurinn skemmti sér vel. En dagurinn var búinn að vera langur og erfiður svo fljótlega var farið í hvíld enda leikur daginn.
Síðasti leikurinn var gegn HK 2, sá leikur var ekki góður enda hópurinn þunnskipaður og þreyta farinn að segja til sín. Leikurinn endaði 15-9 fyrir HK 2. Þær sem skoruðu fyrir okkur voru: Anna María Halldórsdóttir 5, Þóra Sif Kristinsdóttir 3 og Nína Björk Gísladóttir 1.
Ekki góð úrslit úr þessari helgi en þegar að litið er á það að lykilleikmenn hafa verið meiddir og veikir, og að tvær stelpur úr 5.flokki spiluðu alla tímann í öllu leikjunum er ekki annað hægt en að vera bjartsýnn.
Þegar að leikjunum lauk var farið Kringluna þar sem að stelpurnar fóru í búðir og svo var brunað til þess að ná Herjólfi, en sú sjóferð var vægast sagt söguleg. 6 tíma sigling í brjáluðu veðri og haugasjó. Það var því þreyttur og slappur mannskapur sem að kom í land í Vestmannaeyjum um kl. 2:00 aðfaranótt mánudagsins.
Næsta verkefni 4.flokks kvenna er 4.umferð Íslandsmótsins sem fram fer 18.-20.mars n.k., og svo er úrslitakeppnin 15.-17.apríl.