Handbolti - Roland í eldlínunni með landsliðinu

23.jan.2005  17:58
Heimsmeistaramótið í handbolta hófst í dag með leik Íslands og Tékka. Roland Valur Eradze markvörður okkar Eyjamanna er í landsliðshópnum en hann hefur verið einn besti maður Íslandsmótsins og varið eins og berserkur í allan vetur.
 
Roland hóf leikinn í marki Íslands í dag og hélt uppteknum hætti frá því í vetur með því að verja mjög vel. En vörn íslenska liðsins var ekki að spila vel og því var oft erfitt fyrir okkar mann að halda markinu hreinu þar fyrir aftan. Birkir Ívar Guðmundsson, annar Eyjamaður sem nú leikur með Haukum, kom í markið í seinni hálfleik og varði einnig vel. Íslenska liðið tók sig verulega á síðasta stundarfjórðung leiksins og svo fór að þeir náðu að jafna metin þegar 10 sekúndur voru eftir, en Tékkar höfðu mest komist í 10 marka forystu um miðbik seinni hálfleiks. Sannarlega góður endasprettur og vel ásættanleg úrslit eftir það sem á undan var gengið.
 
Næsti leikur liðsins er á þriðjudaginn gegn Slóvenum og líklegt verður að teljast að Roland verði í eldlínunni með strákunum þar. Við hjá ÍBV erum mjög stolt af því að eiga fulltrúa í landsliðinu og efumst ekki um að Roland verði okkur til sóma ásamt strákunum úti í Túnis.