Handbolti - Tap gegn Stjörnunni í döprum leik, 24-25

16.jan.2005  23:53
Í gær, laugardag, léku stelpurnar okkar gegn Stjörnunni og biðu lægri hlut 24-25.  Stjarnan leiddi í hálfleik 11-14.  Það má segja að það hafi verið stjörnubjart þennan dag þar sem það voru Stjörnustúlkur sem höfðu yfirhöndina allan leikinn og höfðu þann vilja sem þarf til að vinna leiki.  Okkar stúlkur, mega alveg skammast sín fyrir sína frammistöðu og við getum ekki boðið Eyjamönnum oftar upp á svona frammistöðu.  Ef við ætlum okkur að vinna titla í vetur þurfum við að fara að vinna lið eins og Stjörnuna, Hauka og Val nokkuð sannfærandi.  Annars höfum við ekkert að gera á meðal þeirra bestu.
 
En ef við snúum okkur að leiknum þá leiddi Stjarnan nánast allan leikinn og eins og áður sagði var staðan í hálfleik 11-14 fyrir Stjörnunni.  Í þeim síðari náði Stjarnan mest 6 marka forystu um miðjan síðari hálfleik.  Okkar stelpur náðu síðan aðeins að minnka muninn undir lokinn og gera leikinn spennandi.  Þegar 5 mín voru eftir leiddi Stjarnan með fjórum mörkum.  Okkar stelpurn náðu með mikilli baráttu að minnka muninn í eitt mark og við fengum þrjú tækifæri á að jafna leikinn á síðustu mínútu leiksins er við vorum m.a. einum leikmanni fleirri en það tókst því miður ekki og Stjarnan vann 24-25.
 
Markaskorarar ÍBV voru:
Anastasia 10/1, Zsofía 5/4, Eva 4, Tatjana 2, Darinka 2 og Guðbjörg 1.
 
Florentina varði 19 skot í markinu.
 
Dómarar leiksins voru ekki slakari en ÍBV liðið og því miður þurfti undirritaður að hella sér yfir þá eftir leikinn.  En tap okkar stúlkna var OKKUR að kenna og því miður eru það sumir sem kunna ekki að taka tapi eins og undirritaður og vill ég biðja dómara leiksins afsökunar á skömmum mínum til þeirra.
 
Maður hafði ekki geð í sér að skrifa um þennan leik fyrr en nú þar sem með svona slakri spilamennsku þá verður þessi vetur ekki upp á marga fiska.  Ef við ætlum okkur lengra þurfum við að taka okkur taki og við getum ekki gert Eyjamönnum það að bjóða upp á spilamennsku eins og hefur sést í nokkrum leikjum í vetur. 
 
Þá megum við sem komum að liðinu einnig fara að einbeita okkur betur af okkar verkefnum og sinna okkar liðum betur, bæði kvenna og karla.  Ég fann til að mynda að ég, undirritaður, var ekki alveg 100% tilbúinn í þennan leik, var rólegur í öskrunum, þreyttur og lúinn :)  Í næstu verkefni þurfum við öll að vera tilbúin í hvert það verkefni er bíður okkar.
 
Eyjamenn mega einnig alveg fara að leggja haraðr að sér að mæta á leiki þar sem eins og ávallt er sagt þá skipta áhorfendur sköpum í svona leikjum.  Léleg mæting Eyjamanna var á þennan leik og megum við Eyjamenn alveg fara að taka okkur þar taki og mæta betur á leiki.
 
Stúlkurnar okkar mega fara að girða sína brók og spyrja sig að því hvert þær vilji stefna í vetur.
 
Þegar við höfum öll girt okkur í brók, aðastandendur liðsins, áhorfendur og leikmenn þá munum við uppskera ríkulega og finna það að þegar við leggjum okkur fram þá verðru okkur launað fyrir erfiðið.
 
Haukar bíða okkar í næsta leik og ég segi bara, VERÐI ÞEIM AÐ GÓÐU.  Ég er allavega tilbúinn að sleppa mér alveg á leiknum og hella mér yfir allt og alla, þar á meðal dómara leiksins.  En hvað um þig?