Handbolti - Sigur hjá okkar stelpum í döprum leik

08.jan.2005  22:03

Stelpurnar okkar tóku í dag á móti Val í toppslag deildarinnar en okkar stelpur voru fyrir þennan leik í öðru sæti deildarinnar og Valur í því þriðja.  Það voru einnig einmitt þessi tvö lið sem áttust við í úrslitarimmu síðasta vetrar um Íslandsmeistaratitlinn.  Stelpurnar okkar byrjuðu illa í leiknum og voru m.a. undir 1-4 í upphafi leiks.  En um miðjan hálfleikinn var orðið jafnt og var jafnt á öllum tölum til loka fyrri hálfleiks en staðan í hálfleik var 12-12.

Í síðari hálfleik byrjuðu okkar stelpur hálfleikinn að miklum krafti og komust við m.a. í  25-20 um miðjan síðari hálfleik.  En þá kom slakur leikkafli hjá stelpunum okkar og Valur komst inn í leikinn og náðu m.a. að jafna leikinn með því að skora næstu 5 mörk og staðan var orðin 25-25.  Framundan voru spennandi lokamínútur þar sem okkar stelpur náðu að landa sigri í leiknum 27-26.  Valsstúlkur áttu möguleika að jafna leikinn á lokasekúndunum en okkar stelpur náðu að verjast þeim á þeim sekúndum sef eftir lifðu.

Okkar stelpur áttu ekki góðan dag en samt sem áður stóð Florentina sig vel í markinu og Guðbjörg stóð sig vel og hefur greinilega haft það gott hér um jólin þar sem hún er óðfluga að komast í sitt gamla góða form.

Veikindi hafa hrjáð okkar lið að töluverðu leiti og til að mynda lék Florentina veik í dag og þurfti nú undir kvöld að leita til læknis sökum mikils slappleika.  Við skulum vona að hún nái sér á næstu dögum af þessum veikindum.  Þá hefur hinn markvörður okkar hún Birna átt við meiðsli að stríða og gat því ekki leikið.  Vigdís Sigurðardóttir sat því á beknum hjá okkur í dag og var til taks ef illa færi.

Stelpurnar okkar verða að vera með hugann og baráttuna í lagi í næstu leikjum ef ekki á illa að fara.  Við verðum að muna að sigrar koma ekki að sjálfu sér.  Með leik eins og í dag munum við eiga von á því að tapa stigum á næstunni.

Markaskorarar ÍBV voru:
Alla 9, Darinka 6, Guðbjörg 3, Tatyana 3, Sofía 3, Anastasia 2 og Eva 1.

Florentina stóð í markinu allan tímann og varði mjög vel eða 19 skot þar af 2 víti.

 

Markaskorarar Vals voru:

Ágústa Edda 7, Katrín 5, Arna 4, Díana 4, Soffía Rut 3, Anna M. 2 og Hafrún 1.

Berglind varði vel að vanda í markinu.