Við höfum fengið Gurrý þjálfara kvennaliðs Vals í handknattleik í stutt spjall við okkur í tilefni að leik okkar stúlkna gegn Val hér í Eyjum á laugardaginn kl 14:00. Það voru einmitt þessi tvö lið sem börðust svo eftirminnilega um Íslandsmeistaratitlinn á síðasta ári og verður því eflaust hörkuleikur á morgun.
Stelpurnar í Val fá því miður ekki frí í skólanum frekar en fyrri daginn þannig að þær þurfa að skrópa til að mæta í leikinn. En það góða er að það eru engin próf um helgina hjá þeim.
Gurrý er ein besta handboltakona er þjóðin hefur alið og hefur til að mynda orðið 12 sinnum Íslandsmeistari og 12 sinnum Bikarmeistari sem leikmaður á sínum 24 ára leikmannaferli.
Ég byrjaði strax að fara á handboltaæfingar með mömmu áður en ég fór að ganga og hef eiginlega verið á handboltaæfingum alla tíð síðan.
Leikirnir voru frábærir og besta auglýsing sem íslenskur kvennabolti gat fengið.
Ég hef fulla trú á því að það verði góð stemming í Eyjum á laugardaginn, því ég veit að það var fullt að fólki í Vestmannaeyjum sem fannst við standa okkur frábærlega í leikjunum í fyrra og koma örugglega til að fylgjast vel með núna.
Engin próf eru að angra neina núna.
"Haraldur Daði er örugglega ljúfasti formaður sem ég hef starfað með." (segir hún og þorir örugglega ekki öðru, komment, HS)
Hvað geturðu sagt okkur af sjálfri þér og þínum uppvexti?
Ég er fædd og uppalin í stórborginni Reykjavík, og hef alltaf búið þar. Ég byrjaði strax að fara á handboltaæfingar með mömmu áður en ég fór að ganga og hef eiginlega verið á handboltaæfingum alla tíð síðan. Ég er starfandi íþróttakennari við Fjölbrautarskólann Ármúla og hef kennt þar í 19 ár og líkar það mjög vel. Líf mitt hefur gengið út á íþróttir og hef ég stundað fimleika, dans, fótbolta og handbolta. Ég hef spilað landsleiki bæði í handbolta og fótbolta, en handboltinn varð ofan á og má segja að frá 25 ára aldri eftir að ég átti mitt fyrsta barn þá hef ég einbeitt mér að handboltanum. Ég er gift Hauki Þór Haraldssyni og eigum við þrjú börn : Guðjón 19 ára, Sigríði 13 ára og Halldóru Björk 7 ára.
Nú eruð þið systur þrjár frægar handboltakonur, voruð þið fleirri systkinin og komu þau þá ekkert við sögu íþrótta?
Við erum bara þrjár systurnar og má segja að fjöldkyldulífið hafið ávallt snúist um íþróttir og þó sér í lagi um handbolta, þar sem báðir foreldara okkar voru á kafi í boltanum. Við erum allar íþróttakennarar að mennt og störfum sem slíkar. (Alfreð núverandi þjálfari hjá ykkur ÍBV konum var meir að segja nemandi hjá okkur Hafdísi í Ármúlaskóla sem og Aðalsteinn Eyjólfson sem þjálfaði hjá ykkur í fyrra. Hörku strákar báðir tveir.) Einnig erum við allar búnar að vera að þjálfa í mörg ár.
Nú varst þú lengi sem leikmaður í boltanum, er eitthvað sem stendur upp úr þessum árum þínum sem leikmaður?
Ég spilaði í 24 ár með meistaraflokki kvenna hjá Fram, minn fyrsta leik 14 ára og mitt síðasta tímabil 38 ára gömul. Það var 1999 og þá urðum við bikarmeistarar eftir sigur á Haukum 13.febrúar, sama dag og pabbi minn varð sextugur og gleymi ég þeim degi aldrei. Það sem stendur samt uppúr í mínum ferli eru að sjálfsögðu 24 Evrópuleikir sem ég á með Fram (Mjög minnistæðir leikir gegn Rússneska stórveldinu Spartak Kiev sem við spiluðum í Laugardalshöll 1989) og að sjálfsögðu allir þeir titlar sem ég hef unnið með Fram bæði sem leikmaður og spilandi þjálfari. Ég á 12 Íslandsmeistaratitla og 12 Bikarmeistaratilta á þeim 24 árum sem ég spilaði með Fram. Að auki þó nokkuð af Reykjarvíkurmeistaratitlum og Íslandsmeistaratitlum utanhúss.
Var Valur síðan fyrsti mfl. sem þú þjálfaðir?
Eins og ég sagði áður þá þjálfaði ég meistaraflokk Fram í mörg ár sem spilandi þjálfari.
Valur stóð sig vel í fyrra og átti í harðri baráttu við ÍBV um Íslandsmeistaratitlinn, fannst þér þetta skemmtilegur vetur?
Þetta var gríðarlega skemmtilegur vetur hjá okkur Valskonum og frábært að vera við stjórn hjá félaginu í fyrsta skiptið sem það fór alla leið í úrslitarimmuna.
Hvernig fannst þér úrslitarimman við ÍBV?
Leikirnir voru frábærir og besta auglýsing sem íslenskur kvennabolti gat fengið.
Var sárt að tapa þessu?
Að sjálfsögðu var sárt að tapa þessari rimmu, en mér fannst við samt standa uppi sem ákveðnir sigurvegarar þar sem fáir höfðu búist við því að við myndum standa uppi í fyrnasterku liði ÍBV.
Nú er komið nýtt ár og þú með aðeins breytt lið, hverjar eru væntingar þínar til liðsins í vetur?
Ég verð að viðurkenna að væntingarnar eru öðruvísi í vetur en í fyrra. Við erum t.d búnar að missa 7 leikmenn frá því í fyrravor, og 6 þeirra spiluðu mikið. Við höfum fengið tvær ungar stelpur inn í hópinn í staðinn, en missirinn er engu að síður mikill frá því í fyrra. En við teljum okkur geta unnið alla á góðum degi og vinnum út frá því. Við tökum hvern leik fyrir sig og sjáum hvað setur.
Ertu sátt við framistöðu ykkar það sem er af móti?
Ég er sátt við okkar frammistöðu framan af og að vera í 3 sæti fyrir áramót er bara allt í lagi.
Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart í upphafi móts?
Mér finnst mitt gamla félag Fram hafa staðið sig vel með sínar ungu stelpur en annað er eiginlega eftir bókinni miðað við mannskap liðanna.
Einhverjir leikmenn sem hafa komið þér á óvart?
Ég get ekki sagt að neinn leikmaður hafið komið mér á óvart, Sigurbjörg og Ásta í Fram eru mjög efnilegar og einnig get ég sagt að Katrín Andrésdóttir í mínu liði hefur einnig verið að spila vel. Þetta eru allt ungar stelpur sem eiga framtíðina fyrir sér og halda vonandi áfram að láta handboltann vera númer eitt í lífinu. Markvarslan er góð hjá liðunum, ykkar markmaður hún Florentina, Helga Torfa Hukum, Berglind hjá mér og Jelena í Stjörnunni eru klassamarkmenn og getur frammistaða þeirra skipt sköpum í leik. Aðrir eldri leikmenn sem og landsliðsmenn eru bara að spila eins og búist var við, ogheld ég að það komi fæstum á óvart. Anna Blöndal í Stjörnunni hefur reyndar átt gott com - back aftur í boltann og finnst mér synd að hún gefi ekki kost á sér í landsliðið.
Hvaða lið munu berjast um Íslandsmeistaratitlinn í vetur?
Haukar, ÍBV og jafnvel Stjarnan koma til með að berjast um titilinn. En svo koma önnur lið eins og við í Val, FH, Víkingur, Grótta/KR, og Fram sem getum strítt þessum liðum á góðum degi. Það er mikil synd að hafa misst KA úr deildinni og vona ég að þær komi af fullum krafti aftur næsta vetur.
Hvernig finnst þér deildin í vetur?
Það má kannski segja að deildin sé eins og ég lýsti hér að ofan.
Hvernig finnst þér staða kvennahandboltans?
Staðan á kvennaboltanum er ágæt og má segja að þegar við etjum kappi við stærri þjóðir þá erum við ekki að tapa eins stórt og við gerðum. En ég held að okkur skorti meiri breidd, þ.e. fleiri sterka klassa leikmenn. Eins og staðan er í dag þá eigum við ekki nema ca. tíu leikmenn sem eru nægilega góðir á Evrópumælikvarða. Einnig má segja að við séu í miklum vandræðum með skyttur. Við eigum ekki nema eina vinstri skyttu, og eina hægri skyttu sem spila þá stöðu hjá sínu félagsliði, sem eru nægilega sterkar á Evrópumælikvara. Það er nauðsynlegt fyrir landliðsþjálfara að hafa meiri breidd ef við ætlum að gera einhverjar kröfur á íslenskan kvennabolta á heimsmælikvarða, því boltinn er það hraður í dag að þú verður að geta keyrt á miklum hraða allan leikinn og verður því að geta hvílt lykilleikmenn.
Ert þú með einhverjar hugmyndir til að efla hann?
Við þurfum bara að gera handbolta meira spennandi fyrir ungar stelpur í dag, en því miður er allt og mikið í boði í dag, þannig að ég hef enga einfalda lausn á því máli.
Nú leikið þið gegn ÍBV á laugardaginn í Eyjum, hvernig leggst sá leikur í þig?
Leikurinn á laugardaginn leggst bara vel í mig eins og allir leikir gera. Við erum reyndar litla liðið á móti stóra liðinu, en það getur allt gerst.
Á að leggja þennan leik eitthvað sérstaklega upp?
Að sjálfsögðu leggur þjálfari leik upp með ákveðnum áherslum á það lið sem hann er að fara að keppa við og þá leikmenn sem hans lið á að mæta. Því undirbúum við okkur fyrir þennan leik með það fyrir augum og reynum að vinna út frá því.
Verður þetta ekki gríðarlega skemmtilegur leikur og rifjaður upp spenningurinn frá því í vor?
Ég hef fulla trú á því að það verði góð stemming í Eyjum á laugardaginn, því ég veit að það var fullt að fólki í Vestmannaeyjum sem fannst við standa okkur frábærlega í leikjunum í fyrra og koma örugglega til að fylgjast vel með núna.
En fá þínar stelpur frí í skólanum til að mæta í leikinn?
Mínar stúlkur fá ekki frí í skóla, því meirihlutinn er í háskólanum og þarf því að skrópa í tíma til að mæta í leikinn. Þær sem eru í menntaskóla eru ekki í skólanum á laugardögum og þurfa því ekki frí.
Það eru engin próf að angra þínar stelpur þessa dagana?
Engin próf eru að angra neina núna.
Hvernig finnst þér Eyjaliðið það sem af er móti?
Eyjaliðið er að smella saman, eins og sýndi sig í Bikarleiknum á móti Haukum. Það tekur alltaf tíma að pússa saman lið þegar allir koma úr sitt hvorri áttinni.
Nú ert þú í handboltasambúð með Valda Gríms þennan veturinn, hvernig gengur samstarfið. Það voru nú margir í handboltaheiminum búnir að spá því að annahvort værir þú búin að sparka honum eða hann þér, en manni sýnist nú þetta bara ganga nokkuð vel, eruð þið ekki búin að afsanna þessa spá?
Ég held að ég og Valdi vinnum ágætlega saman. Ég vissi ekki að fólk hefði svona litla trú á okkur saman. Það er mín skoðun að alltaf sjá betur augu en augu, og þegar fólk ber virðingu fyrir skoðunum hvors annars( eins og við gerum ) þá gengur þetta vel, allavegna þá hefur hann gert margt gott fyrir okkur Valsstelpur, bætt mörgum góðum atriðum við okkar leik. Þannig að ef einhver hefur verið að spá öðru þá segi ég bara " æ,æ,aumingja hann".
Hvernig drengur er Haraldur Daði formaður handknattleiksdeildar Vals?
Haraldur Daði er örugglega ljúfasti formaður sem ég hef starfað með. Sannkallaður herramaður. Hann er samt mjög ákveðinn og hefur ákveðnar skoðanir.Hann fylgist mjög vel með því sem er að gerast hjá félaginu og gerir miklar kröfur til allra sem hann starfar með.(Samt mjög sanngjarn)
Hvernig er vistin hjá Val?
Vistin hjá Val er mjög góð, annars hefði ég nú ekki gert annan samning við félagið eftir fyrstu tvö árin. Þetta er yndislegt félag þar sem samstaða er góð milli deilda. Í Handbolta, fótbolta og körfuboltadeildinnni eru allir góðir vinir og allir vinna að bættum árangri félagsins. Ég verð t.d. að nefna það að knattspyrnukonur í Val studdu okkur mjög mikið í allri úrslitakeppninni í fyrra, og við reyndum svo að styðja þær á leikjum í sumar í fótboltanum. Gríðarlega góð samvinna á milli deilda í félaginu, og það tel ég vera mjög mikilvægt fyrir uppgang félsgsins.