Knattspyrnudeild ÍBV hefur samið við franska framherjann Jordan Nkololo um að leika með liðinu út keppnistímabilið 2023. ÍBV er sem stendur í 10. sæti deildarinnar með 17 stig en aðeins þrjár umferðir eru eftir af deildinni áður en henni verður skipt upp í efri og neðri helming þar sem síðustu fimm umferðirnar verða leiknar.
Nkololo er 30 ára framherji sem hefur komið við sögu hjá þó nokkrum liðum síðustu ár ferils síns en lengst af spilaði hann með Clermont og Caen á árunum 2013-2018 en hann lék þar meðal annars 26 leiki í efstu deild Frakklands. Síðustu ár hefur hann komið við hjá liðum í Rúmeníu, Króatíu, Lettlandi, Úkraínu, Litháen, Kasakstan og Saudí-Arabíu.
Hann hefur leikið sex landsleiki fyrir Lýðstjórnarlýðveldið Kongó og skorað í þeim tvö mörk, síðast lék hann með landsliðinu árið 2020.