Fótbolti - Tveir sigrar hjá Elísabetu og U15 landsliðinu

04.maí.2023  17:00

Elísabet Rut Sigurjónsdóttir og félagar hennar í U15 ára landsliði kvenna áttu frábæra ferð til Portúgal þar sem liðið lék tvo leiki við heimakonur. Liðið er skipað leikmönnum fæddum árið 2008.

Á þriðjudaginn lék liðið fyrri leikinn og hóf Elísabet leikinn á bekknum, henni var skipt inn á miðjuna eftir um 20 mínútur af síðari hálfleik þar sem staðan var 1:0 fyrir Íslendingum. Strax eftir að hún kom inn af bekknum fékk hún aukaspyrnu sem íslenska liðið nýtti sér vel og komst tveimur mörkum yfir. Staðan stuttu seinna orðin 3:0 íslenska liðinu í vil og kláraði liðið leikinn fagmannlega.

Í dag fór seinni leikurinn fram en Elísabet var í byrjunarliðinu og lék fyrri hálfleikinn, staðan að honum loknum var 1:1 en lokatölur 2:1 íslenska liðinu í vil. Elísabet átti aftur þátt í marki þar sem hún gerði vel fyrir jöfnunarmark Íslands.

Frábær árangur hjá Elísabetu og U15 ára landsliðinu sem Magnús Örn Helgason þjálfar.