Fótbolti - Sigríður Lára leggur skóna á hilluna

09.mar.2023  17:20

Sigríður Lára Garðarsdóttir, eða Sísí eins og hún er alltaf kölluð, hefur þrátt fyrir ungan aldur sett svip sinn á íslenska kvennaknattspyrnu síðasta rúma áratuginn. Í samráði við lækna ákvað Sísí að leggja skóna á hilluna og setja heilsuna í fyrsta sæti. Hún segist líta stolt til baka yfir ferilinn og skal engan undra, enda frábær ferill sem Sísí hefur átt, sem hófst hér hjá félaginu okkar.

Upp alla yngri flokkana var ljóst að Sísí var mikil íþróttamanneskja og æfði hún báðar íþróttir hjá félaginu. Sumarið eftir fimmtán ára afmælið hennar hóf hún að leika með meistaraflokki ÍBV sem lék þá í 1. deild kvenna. Hennar fyrsti leikur kom gegn Draupni og vannst hann 1:3. Á hennar öðru ári í meistaraflokki komst kvennalið félagsins í efstu deild þar sem liðið hefur verið allar götur síðan.

Sísí varð strax lykilmaður í meistaraflokki kvenna og missti einungis af þremur leikjum af 108 fyrstu 6 leiktímabil hennar í efstu deild. Margir leikmenn sem hafa leikið með Sísí tala um gleðina sem henni fylgir en hún var grjóthörð inni á vellinum og geta eflaust allir sem keppt hafa við hana kvittað upp á það. 

Þeir sem hafa unnið í kringum félagið á meðan Sísí var innan þess muna einnig eftir því hvernig hún var fyrirmynd fyrir alla yngri iðkendur félagsins og hlýjunni sem hún sýndi öllum í kringum sig. Sísí var einnig mjög dugleg að gefa af sér til yngri iðkenda félagsins og var um nokkurra ára skeið þjálfari hjá félaginu og er vonandi fyrir félagið að Sísí muni koma aftur inn í starfið sem þjálfari. 

Samtals lék Sísí 8 leiktímabil í efstu deild með ÍBV, eitt með Valskonum og eitt með FH-ingum. Þá lék hún 4 leiktímabil í næst efstu deild kvenna, tvö með ÍBV og tvö með FH, þar sem hún var fyrirliði þeirra er liðið tryggði sér sæti í efstu deild 2022.

Sísí fór í bikarúrslit í tvígang með ÍBV, 2016 og 2017 en hún var lykilmaður bæði tímabilin. Í seinna skiptið tókst liðinu að vinna Borgunarbikarinn með glæsibrag er liðið vann Stjörnuna 3:2 í framlengdum leik eftir að hafa lent 1:2 undir. Sísí gerði sér lítið fyrir og skoraði sigurmark ÍBV og skrifaði nafn sitt í leiðinni í sögubækur félagsins.

Það verður mikill söknuður af Sísí af vellinum en við hjá ÍBV viljum óska henni velfarnaðar í því sem hún mun taka sér fyrir hendur og þökkum við henni fyrir allar gleðistundirnar um leið og við óskum henni til hamingju með frábæran feril.