Yngri flokkar - Birna María lagði upp tvö í sigri á Færeyjum

18.ágú.2022  15:43

Birna María Unnarsdóttir og liðsfélagar hennar í U15 ára landsliði kvenna í knattspyrnu gerðu góða ferð til Færeyja en þær unnu heimakonur í annað skiptið á þremur dögum í dag, 5:2. 

Birna María var í byrjunarliði Íslands í dag og var ein af tveimur leikmönnum íslenska liðsins sem léku allar mínútur leiksins. Birna lék í hægri bakverði en leikið var á Tórsvelli í Þórshöfn, hún lék virkilega vel í leiknum og lagði upp tvö marka Íslands.

Það fyrra var annað mark Íslands sem Rakel Eva Bjarnadóttir skoraði á 39. mínútu leiksins, þar átti Birna góða sendingu eftir flotta rispu á hægri vængnum. Hún lagði einnig upp fjórða mark Íslands á 66. mínútu með flottri sendingu inn á teiginn sem Katla Guðmundsdóttir afgreiddi í fyrstu snertingu.

Leikirnir tveir voru fyrstu landsleikir Birnu Maríu sem hefur leikið virkilega vel með 3. og 2. flokki ÍBV á leiktíðinni. Á myndinni að ofan má sjá Birnu koma inn á í sínum fyrsta landsleik.