Fótbolti - Takk fyrir okkur Jeffsy!

25.sep.2021  10:30
Eins og fjallað hefur verið um mun Ian Jeffs hverfa af braut eftir frábært starf í þágu félagsins. Eftir langan og farsælan feril sem leikmaður og þjálfari hjá ÍBV hafði Jeffsy samband við knattspyrnuráð á dögunum og tilkynnti að hann vildi gera breytingar og prófa eitthvað nýtt. 
 
Jeffsy spilaði sinn fyrsta leik fyrir ÍBV gegn KA þann 18. maí árið 2003. Fyrsta markið sitt skoraði hann svo gegn Fylki um tveimur vikum síðar, sem var sigurmark leiksins í þokkabót. Hann átti svo eftir að spila fjölmarga leiki fyrir félagið og skora fleiri mörk - eins og allir vita. 
 
Það var gleðiefni fyrir fótboltann í Vestmannaeyjum þegar Jeffsy sneri sér síðan að þjálfun. Hápunktur þjálfaraferils hans hjá félaginu var að gera kvennaliðið að bikarmeisturum árið 2017. Þá á hann stóran þátt í því að karlaliðið tryggði sér upp um deild í sumar, þar sem hann var aðstoðarþjálfari. 
 
Fyrir utan þetta hefur Jeffsy þjálfað yngri flokka, verið yfirþjálfari yngri flokka og tekið þátt í starfi venslaliðs okkar, KFS. Til gamans má geta að fyrsta bikarmark Jeffsy fyrir ÍBV var gegn KFS árið 2003. Síðasti leikurinn sem hann spilaði fyrir Vestmannaeyinga var í fyrra þegar KFS tryggði sig upp úr 4. deildinni.
 
Þessi kveðja gæti verið margt lengri og ítarlegri og viljum við þakka Jeffsy fyrir frábært samstarf og óska honum góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Það er líka vert að minna á að hver vegur að heiman er vegurinn heim. Takk fyrir okkur Jeffsy.
 
Áfram ÍBV, alltaf, alls staðar.