Yngri flokkar - Íþróttaakademía ÍBV og GRV

15.jan.2012  10:57
Í byrjun næsta mánaðar fer af stað íþróttaakademía ÍBV og GRV og er hún ætluð fyrir 9. og 10. bekk GRV. Í vetur hefur verið starfandi stýrihópur á vegum Vestmannaeyjabæjar og hefur hann nú skilað tillögum inn til fræðslu- og menningarráðs. ÍBV-Íþróttafélag átti tvo fulltrúa í stýrihópnum. Það voru þeir Árni Stefánsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu ÍBV og FÍV og yfirþjálfari félagsins í handknattleik og Jón Ólafur Daníelsson, yfirmaður yngri flokka ÍBV og þjálfari meistaraflokks kvenna. Hægt er að lesa bókun fræðslu- og menningaráðs um málið með því að smella á meira.
Stofnun íþróttaakademíu við GRV.
 
 
Formaður fræðslu- og menningarráðs kynnti vinnu stýrihóps um íþróttaakademíu GRV og ÍBV-íþróttafélags og fór yfir lokaskjal hópsins.
  Stýrihópurinn leggur til að farið verði í þróunarverkefni á vorönn 2012 þar sem sett verður á fót íþróttaakademía við GRV.
 

  Það sem stýrihópurinn vill ná fram með stofnun íþróttaakademíu:
· Efla áhuga, metnað og árangur ungra íþróttamanna í námi og íþróttum
· Draga úr brottfalli úr íþróttum á viðkvæmum aldri.
· Draga úr vímuefnaneyslu unglinga.
· Fylgja skóla-, æskulýðs-, og íþróttastefnu sveitarfélagsins.
· Koma á formlegra samstarfi milli GRV og íþróttahreyfingarinnar.
· Auka þjónustu við afreksfólk og hvetja nemendur til að tileinka sér hugmyndafræði íþrótta í námi og hugmyndafræði náms í íþróttum.
 

Allir nemendur 9. og 10. bekkjar sem hafa íþróttir í vali munu eiga möguleika á að velja íþróttaakademíuna sem valgrein. Þeir nemendur sem innritast í íþróttaakademíuna þurfa að skrifa undir lífsstílssamning þar sem þeim verður m.a. óheimilt að neyta vímuefna og krafa verður gerð um námsárangur og fyrirmyndarhegðun. Þeim mun standa til boða alhliða þjálfun innan stundaskrár þar sem lögð verður áhersla á styrk, snerpu, teygjur o.þ.h. Fræðslufyrirlestrar verða haldnir reglulega. Nemendum í fótbolta og handbolta mun standa til boða tækniæfingar 1x í viku, en þeir nemendur eru flestir allra nemenda sem eru með íþróttir í vali.  
 

Ráðið samþykkir framlagðar hugmyndir stýrihópsins sem hefur  unnið  gott og faglegt starf. Jafnframt þakkar ráðið meðlimum stýrihópsins störf þeirra í þágu uppbyggingar skóla- og íþróttastarfs í Vestmannaeyjum. Ráðið felur framkvæmdastjóra fræðslusviðs að ganga frá samningi við ÍBV-íþróttafélag vegna reksturs íþróttaakademíu GRV og ÍBV-íþróttafélags.
Það er fullvissa ráðsins að þetta þróunarverkefni muni koma til með að styrkja samstarfsvettvang GRV og ÍBV-íþróttafélags, vera mikilvæg forvarnarvinna og efla íþróttastarf Vestmannaeyja.