Yngri flokkar - 4 flokks stelpurnar töpuðu í úrslitum

27.feb.2011  17:21

- Geta engu að síður borið höfuðið hátt

Stelpurnar í fjórða flokki í handbolta mættu ofjörlum sínum í úrslitaleik bikarkeppninnar í dag. ÍBV mætti þá Selfossi í Laugardalshöll en í dag fóru fram bikarúrslitaleikir yngri flokkanna. Lokatölur urðu 22:33 en í hálfleik var staðan 13:17 Selfossi í vil. Leikurinn var jafn framan af, Selfoss var reyndar ávallt skrefi á undan en Eyjastúlkur náðu alltaf að halda í við 1. deildarliðið en ÍBV spilar í 2. deild Íslandsmótsins.
Eins og áður sagði var staðan 13-17 í hálfleik og seinni hálfleikur fór ágætlega af stað því ÍBV minnkaði muninn niður í tvö mörk. En um miðjan hálfleikinn kom afar slæmur kafli hjá ÍBV þar sem Selfoss breytti stöðunni úr 17-21 í 17-28. ÍBV skoraði ekki mark í einar tólf mínútur á þessum kafla. Eftirleikurinn var Selfossliðinu auðveldur og í raun ljóst hvoru megin sigurinn myndi enda.
 
Engu að síður frábær árangur hjá stelpunum að komast alla leið í úrslitaleikinn. ÍBV sló m.a. út tvö 1. deildarlið á leið sinn í Laugardalshöllina, Fram og Val en náði ekki að leggja það þriðja að velli. Þrátt fyrir tapið hlutu stelpurnar ómetanlega reynslu sem mun nýtast þeim í framtíðinni.  Umgjörð úrslitaleikja yngri flokkanna er stórglæsileg, allir leikir fara fram í Laugardalshöll með kynnum, ljósasýningu og umgjörðin er í raun eins og í úrslitaleikjum meistaraflokkanna sem fóru fram í gær.
 
Mörk ÍBV: Sóley 14, María 6, Sandra Dís 5, Guðdís 1, Bryndís 1.
 
Varin skot: Sara Dís 14.
 
eyjafrettir.is greindu frá.