Fótbolti - Breytingar á leikmannahóp ÍBV

14.maí.2010  20:56

Það hefur verið mikið að gera á skrifstofu ÍBV síðustu daga en unnið hefur verið að því hörðum höndum að styrkja lið ÍBV fyrir átökin í sumar.  Fjórir leikmenn hafa nú bæst í hópinn fyrir sumarið en einn hverfur á braut.

ÍBV gekk frá lánssamning við James Hurst, 18 ára unglingalandsliðsmanns frá Englandi á þriðjudag.  Kemur hann frá enska liðinu Portsmouth.  Hann hefur æft með liðinu i vikunni og vonandi fá Eyjamenn að sjá hann í liðinu á morgun, gegn Val á Hásteinsvelli en leikurinn á að hefjast kl. 16.00.

ÍBV hefur fengið að láni frá danska liðinu Lyngby miðvörðinn Rasmus Christiansen.  Lánssamningurinn er til tveggja mánaða.  Rasmus er 21 árs gamall og hefur verið hjá Lyngby frá árinu 2007.  Hann hefur leikið 36 leiki fyrir yngri landslið Danmerkur.  Hann kemur til landsins í fyrramálið. 

Þá hefur ÍBV fengið félagaskipti samþykkt fyrir Suður Afrískan sóknarmann, Danien Justin Warlem.  Sá er 23 ára og kemur á frjálsri sölu.

Marko Kazic, 19 ára sonur Dragan Kazic aðstoðarþjálfara og aðalþjálfara 2.flokks ÍBV hefur einnig skipt yfir í ÍBV.

Viðar Örn Kjartansson sem kom til félagsins í fyrra frá nágrönnum okkar á Selfossi fór þess á leit við félagið að samning við hann yrði rift.  Hefur hann ákveðið að snúa aftur á heimaslóðir.  Knattspyrnuráð ÍBV vill þakka Viðari fyrir hans framlag til félagsins en hann lék 19 leiki og skoraði í þeim 3 mörk.