Hlý orð í Pressunni.is

01.maí.2010  18:30
Ólafur Arnarson skrifar grein í Pressuna.is, þar sem hann hælir okkur hjá ÍBV. Hann segir meðal annars:"Greinilegt er að Eyjamenn eru orðnir vanir gestgjafar á svona stórmótum og skipulagningin var frábær."
Við þökkum honum hlý orð!
Greinina má lesa alla með því að ýta á meira.
Ég skrifa þessar línur um borð í Herjólfi á leið frá Vestmannaeyjum á sunnudagseftirmiðdegi. Að baki er einstaklega ánægjuleg helgi í Eyjum að fylgjast með lokahluta Íslandsmóts yngra árs 6. flokks karla í handknattleik. Það eru forréttindi að fá að fylgjast með keppni þessara ungu manna, sem gefa sig í leikinn af lífi og sál. Augljóst var í þessu síðasta móti vetrarins, að framfarirnar í vetur hafa verið miklar.

Þrátt fyrir að flugumferð á landinu væri takmörkuð var mæting góð og aðeins örfá lið, sem ekki gátu mætt. Á hádegi á föstudag lagði Herjólfur upp frá Þorlákshöfn með fullfermi af ungum íþróttamönnum, þjálfurum, liðstjórum og foreldrum, sem komu með til að fylgjast með og aðstoða eilítið. Sumir foreldrar voru í svefnnefnd og gistu með keppendum í barnaskólanum í Eyjum, aðstoðuðu á annan hátt og gerðu sem sagt gagn. Aðrir reyndu að þvælast sem minnst fyrir og verð ég að viðurkenna að ég var í þeim hópi.

Það var dálítið hvasst á föstudaginn og ekki gott í sjóinn. Samt bar ekki mikið á sjóveiki hjá sjófarendunum ungu. Stöku drengur varð að fá lánað ílát til öryggis en að mestu sluppu keppendur við ógleði.
Strax við komuna út í Eyjar hófst keppnin í íþróttamiðstöðinni. Leikgleðin var mikil og hugarfarið jákvætt, jafnvel hjá þeim liðum, sem máttu láta í minni pokann, en eins og gengur var vitanlega styrkleikamunur á liðum.

Vestmannaeyingar eru höfðingjar heim að sækja. Öll aðstaða var til fyrirmyndar bæði á keppnisstað og í barnaskólanum þar sem gist var. Máltíðir voru bornar fram í Höllinni og þóttu svo mikið lostæti, að foreldrar reyndu allt hvað þeir gátu að fá að fylgja keppendum í mat til að fá að setjast að snæðingi með þeim.

Greinilegt er að Eyjamenn eru orðnir vanir gestgjafar á svona stórmótum og skipulagningin var frábær.
Á laugardagskvöldið var kvöldvaka í íþróttamiðstöðinni. Þar fór fram einhvers konar útgáfa af Skólahreysti/Wipeout Vestmannaeyjar. Ekki var keppt af minna kappi þar en í handboltanum. Svo voru fullorðnir fylgdarmenn liðanna fengnir til að spreyta sig í að taka vítaskot á móti Sigmari Þresti Óskarssyni fyrrum landsliðsmarkmanni. Í föruneyti liðanna leyndust gamlar kempur á borð við Kristján Arason og Valdimar Grímsson. Skal nú ekki sagt nánar frá vítakeppninni að öðru leyti en því, að Sigmar Þröstur virðist hafa haldið sér í betra leikformi en aðrar gamlar kempur á svæðinu en allt var þetta auðvitað í miklu gamni og lítil alvara á ferð.

Það þarf marga sjálfboðaliða til að halda svona mót. Á mótstað þarf að halda utan um keppnina og svo þarf tímaverði og  tvo dómara í hvern einasta leik. Ekki má heldur gleyma því sjálfboðaliðsstarfi, sem fer fram hjá félögunum sjálfum. Þetta óeigingjarna starf fer fram inni í hverju einasta íþróttafélagi á landinu. Þjálfarar yngri flokkar frá yfirleitt greitt fyrir vinnu sína, en ekki eru það nein ósköp þannig að ekki er það sókn eftir auði, sem rekur þá áfram.

Þegar maður fær tækifæri til að taka þátt í svona viðburði fyllist maður þakklæti í garð þeirra, sem gefa af tíma sínum og gefa af sjálfum sér til að byggja upp íþróttakempur framtíðarinnar.