Fótbolti - Sigur og tap í deildarbikarnum

09.mar.2010  08:58
Eyjamenn kepptu tvo leiki í Lengjubikarnum um helgina.  Fyrst gegn úrvalsdeildarliði Breiðabliks  á föstudagskvöldið og síðan gegn 1.deildarliði Gróttu á sunnudag.  Leikurinn gegn Blikum fór fram í Kórnum og var í beinni útsendingu á Sporttv.is.  Lokatölur urðu 0-2 tap.  Eyjaliðið var slakt framan af leik og komust Blikar yfir á 25.mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Í síðari hálfleik hresstust Eyjamenn nokkuð og sóttu hart að marki Kópavogsliðsins.  Áttu meðal annars þrjú sláarskot.  En allt kom fyrir ekki og úr einni skyndisókn skoraði Alfreð Finnbogason seinna mark Breiðabliks og innsiglaði sigurinn.

Á sunnudeginum var síðan keppt við Gróttu og áttust liðin við í Akraneshöll.  Það var Tonny Mawejje sem skoraði tvö fyrstu mörk leiksins fyrir okkar menn og var Eyjaliðið mun betra lið á vellinum í fyrri hálfleik. Í þeim síðari dró af liðinu enda annar leikurinn á skömmum tíma og hópur ÍBV þunnur.  Gróttumenn náðu að minnka muninn áður en hinn ungi og efnilegi Kjartan Guðjónsson skoraði þriðja mark ÍBV og tryggði sigurinn.

ÍBV hefur því sigrað tvo og tapað tveimur leikjum í deildarbikarnum og sitja í 4.sæti riðilsins.  ÍBV á eftir að mæta Keflavík, Þrótt og HK.