Fótbolti - Sigur á ÍR eftir framlengingu

04.jún.2008  10:45

ÍBV og ÍR háðu í gærkvöldi harða baráttu í annari umferð Visa-bikarkeppninnar en leikurinn fór í framlengingu. Aðstæður voru ekkert sérstaklega góðar því það var strekkingsvindur á annað markið.

Heimir gerði 5 breytingar á byrjunarliði frá útileiknum gegn Víkingi Ólafsvík. Úr byrjunarliðinu fóru: Albert Sævarsson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Atli Heimisson, Italo Maciel og Augustine N´sumba. Inn í byrjunarliðið komu: Yngvi Borgþórsson, Anton Bjarnason, Elías Fannar Stefnisson, Egill Jóhansson og Ingi Rafn Ingibergsson.

Eyjamenn náðu forystu eftir fjórtán mínútna leik með marki frá Antoni Bjarnasyni. Stuttu síðar þurfti Yngvi Magnús Borþórsson að yfirgefa völlinn og þurfti m.a. að gista á sjúkrahúsi í nótt, reyndar eins og einn ÍR-ingurinn. Inná kom Steinar Ernir Knútsson í sínum fyrsta meistaraflokks leik. ÍR jafnaði á 29. mínútu og komust yfir strax eftir hálfleik eða 51. mínútu. Því var á brattann að sækja fyrir eyjamenn og lá svo nokkuð á Breiðhyltingum undir lokin. Á 87. mínútu skoraði svo Bjarni Rúnar Einarsson jöfnunarmark fyrir ÍBV en hann var annars besti maður heimamanna. Undir lok venjulegs leiktíma voru heimamenn heppnir að fá ekki á sig mark þegar að einn ÍR-ingurinn komst einn inn fyrir en Elías Fannar Stefnisson varði glæsilega.

Í framlengingunni voru menn orðnir nokkuð þreyttir og nýtti varamaðurinn Atli Heimisson sér það og skoraði á 104. mínútu. Héldu eyjamenn þetta út og því sigurinn staðreynd og eru komnir í 32. liða úrslit Visa-bikarsins. Leikurinn tók sinn toll nokkrir leikmenn ÍBV, þeir Egill Jóhannsson, Yngvi Borþórsson og Pétur Runólfsson, meiddust í leiknum og er óvíst með þá í leiknum gegn Fjarðarbyggð á föstudag.