Fótbolti - Knattspyrnusumarið fer vel af stað

27.maí.2008  10:58
Helgin 23.-25. maí var viðburðarík hér í eyjum og gefur góða von um komandi knattspyrnusumar.

Meistaraflokkur kvenna hóf keppni að nýju á íslandsmóti og fóru þar á kostum í smá gjólu á Hásteinsvelli, yfirspiluðu andstæðinga sína Skagamenn og uppskáru 7-1 sigur. Greinilegt að Jón Óli er að gera fína hluti með þetta lið og verður það vert að fylgjast með þeim komandi sumar.

Skömmu eftir að sá leikur var flautaður af hófst leikur ÍBV og Stjörnunar í meistaraflokki karla, strákarnir hafa byrjað þetta tímabil mjög vel, ekki búnir að fá á sig mark í fyrstu tveimur leikjunum og skorað 4, sem er góð bæting frá byrjun síðasta sumars. Slógu þeir ekki slöku við og unnu góðan 2-0 sigur á frekar andlausu liði Stjörnunar.

Yngri flokkar ÍBV eru líka byrjaðir á fullu, 3.fl karla náði í 3 góð stig á móti fínu liði Skallagríms í leik sem var góð skemmtun, litu meðal annars tvær vítaspyrnur dagsins ljós. Peyjarnir hans Lása koma vel undan vetri og verður það spennandi að sjá hvernig þeim mun ganga á íslandsmótinu þetta árið.
2.fl karla tók á móti Álftanesi á Týsvellinum á laugardaginn, á sama tíma og hinn árlegi Toyota dagur fór fram við Týsheimilið. Nýttu það sér fjölmargir Toyota eigendur, létu meistaflokksleikmenn ÍBV þrífa bílinn sinn að utan, þáðu léttar veitingar í boði hússins og litu á 2.fl peyjanna eiga fínan leik gegn frekar slöku liði Álftnesinga og endaði leikurinn 7-3 okkur í hag.
Stelpurnar í 2.fl léku svo síðasta leik helgarinar á sunnudaginn gegn sterku liði Breiðabliks. Kópavogsstúlkurnar voru heldur of stór biti svona í fyrsta leik og unnu þær hér sannfærandi 8-1 sigur.