Fótbolti - Stjarnan í heimsókn í dag kl 19:00

23.maí.2008  01:11
Í dag kl 19:00 leikur ÍBV annan heimaleik sinn á tímabilinu.
Mótherjinn er Stjarnan úr Garðabæ. Mikill metnaður er í Garðabænum og er Stjörnumönnum spáð einu af efstu sætum fyrstu deildar í sumar.
Stjörnumenn hafa líkt og ÍBV byrjað Íslandsmótið vel. Unnið einn leik og gert eitt jafntefli og eru sem stendur í þriðja sæti. Það lið sem vinnur þennan leik mun að öllum líkindum verma efsta sætið eftir þrjár umferðir.
Þjálfara Stjörnunar þekkjum við Eyjamenn af einu góðu en það er Bjarni Jóhannsson sem stýrði ÍBV tvisvar sinnum til Íslandsmeistaratitils og einu sinni til bikartitils.
Stjarnan er með breytt lið frá því í fyrra og hafa fengið marga nýja leikmenn til sín fyrir þetta tímabil. Helst ber að telja Tryggva Bjarnason sem kom frá KR en hann lék með ÍBV fyrir fáum árum. Markvörðinn Bjarna Þórð Halldórsson sem kom frá Fylki ásamt miðverðinum sterka Kára Árnasyni. Einnig hafa þeir fengið framherjana Zoran Stojanovic frá Serbíu og Ellert Hreinsson frá Breiðabliki.
Það má því búast við hörku leik á Hásteinsvelli í dag og hvetjum við alla Eyjamenn að koma og styðja strákana til sigurs.