Fótbolti - Sigur í fyrsta

19.maí.2008  17:24

Eyjamenn sóttu Þórsara frá Akureyri heim í gær. Þórsarar unnu fyrsta leik sinn á Íslandsmótinu en þá fengu þeir KS/Leiftur í heimsókn og fór sá leikur fram í Boganum knattspyrnuhúsi þeirra Norðanmanna.

Það var glæsilegt veður á Akureyri í gær þegar Eyjamenn lentu. Sól og logn og Akureyrarvöllur hvanngrænn og fallegur. Undarleg ákvörðun að færa leikinn úr sólinni, logninu og græna grasinu inn í dimmuna, kuldann og gúmmíið í Boganum.

En snúum okkur að leiknum.

Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti og yfirspiluðu Þórsara fyrstu 30 mínútur leiksins. Þá hafði Atli Heimisson skorað fyrsta mark ÍBV eftir mistök í vörn Þórsara. Eftir hálftíma leik dró til tíðinda þegar Atli Heimisson slapp í gegnum vörn Þórsara með varnarmann á hælunum. Sá eltingaleikur endaði með því að góður markvörður Þórsara Árni Skaptason kom á móti Atla og varði glæsilega. Eitthvað sá dómari leiksins athugavert við þetta atvik og vísaði Atla af velli. Undarlegur dómur að ekki sé meira sagt því ýtt var á bakið á Atla og vonuðust Eyjamenn að dómari leiksins væri að dæma vítaspyrnu. Leikmenn ÍBV voru ekkert síðri það sem af var hálfleiksins og uppskáru mark stuttu síðar þegar Andri Ólafsson stangaði boltann í netið eftir aukaspyrnu.

Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri Eyjamenn færðu sig eðlilega aftar á völlinn en gáfu Þórsurum engin færi á sér. Bjarni Rúnar fór meiddur af velli eftir harða tæklingu og kom Þórarinn Ingi Valdimarsson í hans stað. Italo og Gústi komu af velli og tóku Yngvi Borgþórs og Egill Jóhannsson stöður þeirra. Leikurinn fjaraði út án merkilegra atvika. Þórsarar skoruðu reyndar tvö mörk en þau voru réttilega dæmd ógild eins og upptökur sýna vegna rangstöðu. Þórsarar voru meira með boltann í seinni hálfleik án þess að skapa sér hættuleg færi.

Niðurstaðan því góður 0-2 útisigur hjá ÍBV á gerfigrasi þeirra Þórsara þrátt fyrir að leika einum leikmanni færri í 60 mínútur.

Erfitt er að taka einn leikmann út úr Eyjaliðinu og hrósa honum því þetta var fyrst og fremst sigur liðsheildarinnar. 6 stig eftir tvo leiki er góð byrjun en mótið er varla hafið. Í fyrra fóru öll liðin sem röðuðu sér í efstu sætin illa af stað.

Eftir fyrstu þrjár umferðirnar í fyrra var staðan svona:
Grindavík 7 stig
Þróttur 4 stig
Fjölnir 1 stig
ÍBV 3 stig

Stigin 6 verða þó aldrei tekin af okkur og nú skiptir mestu máli að horfa ekki til baka og á þau stig sem komin eru í hús heldur á framtíðina. Næsti leikur meistaraflokks er einmitt á föstudag en þá koma lærisveinar Bjarna Jóhannssonar í Stjörnunni til Eyja. Stjörnumönnum er spáð góðu gengi í sumar enda hafa þeir styrkt lið sitt verulega fyrir átök sumarsins.