Fótbolti - 1 deild: Hvað gerist í kvöld?

17.ágú.2007  10:20
Eftir sigur í síðasta leik gegn Stjörnunni komust Eyjapeyjar tímabundið upp fyrir Fjölni í þriðja sæti en eftir sigur Fjölnis á Leikni og svo sigur Fjarðabyggðar á Reyni þá féll liðið aftur í fimmta sætið. Fimmta sætið hefur verið hlutskipti ÍBV liðsins í mestallt sumar en verði það niðurstaðan er ljóst að það skilar liðinu engu. Fyrstu þrjú sætin gefa rétt á að leika í deild þeirra bestu að ári og er liðið nú fjórum stigum frá því takmarki, í rauninni fimm, því Fjölnir er með mun betri markatölu. Fjarðabyggð er svo einu sæti og einu stigi fyrir ofan ÍBV liðið og því má segja að þessi tvö lið séu höfuðandstæðingar ÍBV það sem eftir lifir móts.

Sjö leikir eru eftir af mótinu. Andstæðingar ÍBV í þessum leikjum eru Leiknir (heima), KA (úti), Víkingur Ólafsvík (heima), Njarðvík (úti), Grindavík (heima), Þróttur Reykjavík (úti) og Fjölnir (heima). Að öllu eðlilegu ætti liðið að sigra næstu fjóra leiki, en síðustu þrír leikirnir verða erfiðir og ómögulegt að segja til um úrslit í þeim.

Fjölnir á sömuleiðis eftir sjö leiki. KA (heima), Víkingur Ólafsvík (úti), Njarðvík (heima), Grindavík (úti), Þróttur Reykjavík (heima), Þór (heima) og ÍBV (úti).

Fjarðabyggð á einnig sjö leiki eftir og eiga eftir að spila við Þór (úti), Stjörnuna (úti), Leiknir (heima), KA (úti), Víking Ólafsvík (heima), Njarðvík (úti) og Grindavík (heima).

Eins og sjá má þá eiga þessi þrjú lið mjög svipað prógram eftir í lokaumferðunum og nánast sama fjölda af heima- og útileikjum. Fjarðabyggð á þó einn útileik fleiri heldur en ÍBV og Fjölnir, en hvort það skipti einhverju máli er ólíklegt, enda lið Fjarðabyggðar verið jafnvígt á heima- sem útivelli. Eyjaliðið hefur hins vegar verið sterkara á útivöllum í ár en á heimavelli, eitthvað sem hefur sjaldan eða aldrei gerst áður. Ef ÍBV liðið ætlar sér í þriðja sætið þá verða strákarnir að fara að taka sig á á heimavelli, því fleiri stig mega ekki fara í sarpinn hér heima, og eiginlega ekki það sem eftir lifir móts.

Lítum aðeins á stöðuna eins og hún er núna. Ef Eyjamenn vinna alla leikina sína sem eftir eru, er liðið ekki öruggt um þriðja sætið. Liðið verður jafnframt að treysta á að Fjölnir tapi a.m.k. einum leik til viðbótar við leikinn sem þeir myndu þá tapa gegn ÍBV í síðustu umferðinni, og Fjarðabyggð verður að gera a.m.k. eitt jafntefli í leikjunum sem eftir eru, svo ÍBV endi í þriðja sætinu.

Ef strákarnir tapa einum leik af þessum sjö sem eru eftir þá gæti liðið verið komið sjö stigum (átta með markatölunni) á eftir Fjölni og fjórum á eftir Fjarðabyggð. Það myndi þá þýða að ÍBV liðið yrði að vinna alla hina sex leikina og jafnframt treysta á að Fjölnir myndi tapa þremur leikjum af sjö (einn af þeim gegn ÍBV) og það gæti orðið eilítið langsótt. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að strákarnir haldi haus í þessum leikjum sem eftir eru og taki með sér veganestið úr Stjörnuleiknum síðast, sem var glimrandi góður.

Næsti leikur liðsins er í kvöld, föstudag gegn Leikni á Hásteinsvelli. Þar ætla strákarnir að sýna svipaða takta og gegn Stjörnunni fyrr í sumar, þegar Stjörnumönnum var pakkað saman 3-0 með frábærri spilamennsku.

Leikurinn í kvöld hefst á slaginu 19:00 og eru allir Eyjamenn sem vettlingi geta valdið hreinlega beðnir um að mæta í kvöld og styðja strákana í þessum mikla spennuleik.

(Mynd með frétt: Júlíus Ingason)