Fótbolti - Nýr leikmaður: Augustine Nsumba

23.júl.2007  15:08
Nýji leikmaður ÍBV, Úgandamaðurinn Agustine Nsumba (Gústi), mætti á klakann á fimmtudaginn síðasta eftir langt ferðalag. Hann kemur frá sama liði og Andy spilaði með, Sportsclub Villa, en Andy var einmitt fyrirliði þess liðs og léku þeir félagar saman þar. Augustine er lítill og lipur strákur sem spilar sem sóknarþenkjandi miðjumaður. Hann er réttfættur en segist vera ágætur með vinstri líka. Hann kom inná í sínum fyrsta leik fyrir félagið, gegn Þór í síðustu umferð og lék þá rúman hálftíma. Menn voru mjög sáttir við hans framlag í leiknum en sjálfur var hann hógværðin uppmáluð og sagðist ekki hafa verið nógu ánægður með sjálfan sig í leiknum. ,,Ég var ekki alveg nógu sáttur með mína spilamennsku. Þetta var allt í lagi, en ekki nógu gott. Ég var auðvitað að leika minn fyrsta leik fyrir félagið og fyrsta leikinn minn á Íslandi svo það truflaði auðvitað aðeins. Ég hefði getað gert betur í nokkrum atvikum í leiknum, ég klúðraði t.d. 2-3 ágætum færum. En þetta á bara eftir að lagast. Það var auðvitað frábært að vinna leikinn, eftir nokkra tapleiki og á útivelli í þokkabót."



Félagarnir frá Úganda, Nsumba og Mwesigwa


Nsumba sagði það hafa skipt miklu máli að Andy hefði verið hér fyrir og það hafi hjálpað sér að taka ákvörðunina um að koma hingað. Hann sagði þá vera mjög góða vini og það muni einnig hjálpa honum að aðlagast lífinu hérna á Íslandi. Hann er sáttur við veðrið það sem af er. ,,Það er ekkert yfir veðrinu að kvarta síðan ég kom. Heima í Úganda er núna 30 stiga hiti eða jafnvel meira svo það er auðvitað mikil breyting að koma hingað. En það er ekkert að veðrinu og ég vona bara að þetta haldist svona eins og búið er að vera síðustu daga." Aðspurður um hvað honum fyndist um Vestmannaeyjar eftir þessa fyrstu daga sagði hann að þetta væri góður staður og hann var sérstaklega ánægður með náttúrufegurðina.

Nsumba gerði þriggja ára samning við Eyjamenn en hann er einungis tvítugur að aldri. Það er því ljóst að við höfum nælt okkur í framtíðarleikmann ef hann spilar eins og hann gerði í Þórsleiknum. Hann sagði að líklega færi hann aftur til Afríku eftir tímabilið og kæmi svo aftur á næsta ári. Enda er algjör óþarfi að kvelja slíka hitabeltiskappa með íslenska vetrarveðrinu. Við bjóðum Augustine Nsumba velkominn til Vestmannaeyja og ÍBV og óskum honum góðs gengis hjá félaginu.