Fótbolti - 1 deild: Þriðja jafnteflið á Hásteinsvelli staðreynd

30.jún.2007  12:19
Njarðvíkurpiltar mættu á Hásteinsvöll í gær í rjómablíðu. Mikið líf hefur verið í Eyjum síðustu daga en Shellmótið hefur verið í fullum gangi og allt gengið eins og smurt. Því var mikil stemning fyrir leiknum gegn Njarðvík í gær og áhorfendur létu sig ekki vanta. Mikill merkisatburður varð fyrir leikinn er inngöngustefinu var breytt eftir 10 ár notkun. Þá var aðal Star-Wars stefinu skipt út fyrir annað nýrra Star Wars stef: Darth Vader stefið var spilað og verður að segjast að þetta er góð breyting og við á ibv.is viljum þakka Andra Húgó kærlega fyrir að koma þessu til okkar. Við munum heyra í Andra fljótlega eftir helgi og spjalla við hann um þetta.

Liðið:
Fannar í markinu. Bjarni Hólm og Palli í miðvörðum. Garner í vinstri bakverði, Arnór í hægri bakverði. Þórarinn Ingi og Ingi Rafn á köntunum. Bjarni Rúnar og Andy á miðjunni. Pétur fyrir framan þá. Atli frammi. Aðrir sem fengu að spreyta sig: Andri kom inn fyrir Pétur á 46. mín, Stebbi kom inn fyrir Bjarna Rúnar á 68. mín. og Egill kom inn fyrir Inga Rafn á 76. mín.

Krummi hvíldi annan leikinn í röð vegna tannviðgerða og hefur þurft að taka því rólega undanfarið. Yngvi kom ekki inní liðið eftir að hafa verið veikur í síðasta leik og athygli vakti að Stebbi "Fjarki" Hauks var tekinn út úr liðinu eftir að hafa skorað fjögur mörk í síðasta leik. Eyjamenn hófu leikinn af krafti og ætluðu sér greinilega að halda sama dampi og í síðustu leikjum. Strax á 5. mínútu áttu heimamenn hornspyrnu frá vinstri sem var tekin stutt, Ingi Rafn fékk boltann og sendi glæsilega sendingu fyrir markið þar sem Atli stóð aleinn og ódekkaður og var hann ekki í miklum vandræðum að setja boltann í netið með glæsilegum skalla. Eyjamenn létu kné fylgja kviði eftir markið. Ingi Rafn fékk dauðafæri strax mínútu síðar en skaut yfir markið. Eyjamenn sköpuðu sér svo nokkur ágætis færi eftir gott spil en náðu ekki að bæta við marki. Andy og Þórarinn Ingi áttu t.d. báðir hættulega skalla en inn vildi boltinn ekki.

Eftir hálftíma leik slokknaði svo eiginlega á heimamönnum. Á 36. mín skoraði körfuknattleiksmaðurinn í liði Njarðvíkur, Sverrir Þór Sverrisson, glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu, stöngin inn, sem lítið var hægt að gera við í sjálfu sér. Reyndar var aukaspyrnan stórt spurningamerki en Bjarni Hólm fór uppí skallabolta gegn sóknarmanni Njarðvíkur rétt fyrir utan teiginn og Hans Scheving dómara leiksins fannst Bjarni brjóta af sér en sú ákvörðun þótti heldur skrýtin. Njarðvíkingar héldu svo áfram að þjarma að Eyjamönnum og var eins og lið ÍBV væri bara allt í einu hætt í leiknum eftir fínan leik fyrsta hálftímann.

Síðari hálfleikur var tíðindalítill í meira lagi. Nánast ekkert markvert gerðist fyrr en rúmlega 25 mín voru liðnar af seinni hálfleik. Þá gáfu Eyjamenn aðeins í og sköpuðu sér nokkur hálffæri. Njarðvíkingar hefðu getað stolið sigrinum á 75. mín þegar þeir fengu mjög gott færi en skutu yfir markið. Heimamenn hefðu reyndar líka getað stolið sigrinum en nokkrum mínútum fyrir leikslok komst Atli einn í gegn og fékk erfitt en samt mjög gott færi en skaut hátt yfir markið. Niðurstaðan því 1-1 á Hásteinsvelli og Eyjamenn vafalaust mjög ósáttir við þriðja jafnteflið á heimavelli í sumar.

ÍBV liðið kom mjög ákveðið til leiks og spilaði fínan bolta fyrsta hálftímann. Síðan hætti liðið að spila og mikið einbeitingarleysi og kæruleysi greip um sig. Njarðvíkurpiltar gengu á lagið og sýndu oft á tíðum ágætis spilamennsku. Það var þó meira fyrir klaufagang heimamanna að þeir komust inní leikinn. Eyjapeyjar féllu niður um eitt sæti í töflunni eftir leiki gærkvöldsins. Liðið munu núna bretta upp ermarnar og girða sig í brók fyrir toppslaginn gegn Grindavík á mánudaginn, þar verður að halda einbeitingu allan leikinn ef ekki á illa að fara enda Grindvíkingar með geysisterkt lið og sitja í efsta sætinu. Þetta verður hörkuleikur og hvetjum við alla Eyjamenn á fastalandinu, sem og í Eyjum, að leggja leið sína í Grindavík á mánudaginn.