Fótbolti - Jonah Long: Vestmannaeyjar er frábær staður

19.jún.2007  11:24
Jonah Long, Bandaríkjamaðurinn í liði okkar Eyjamanna, tryggði liðinu þrjú stig í síðasta leik gegn KA. Við heyrðum aðeins í honum hljóðið í gærkvöldi og hann byrjaði á því að segja okkur aðeins frá því hvaðan hann kemur.

Kemur frá Kalí
,,Ég er fæddur og uppalinn í Kalí-fornía. Heimastöð O.C. og Laguna Beach sjónvarpsþáttanna, sem gefur flestum af okkur Kaliforníubúum slæmt orðspor. Það vita fáir að Kalifornía framleiðir t.d. besta ost í heimi. Ríkið er einnig heimili svartabjarnarins (the black bear) og þar höfum við líka einn stærsta brimbrettastað í heimi, sem kallast mavricks. Rightous dude! En í meginatriðum er Kalí mjög stór staður og mjög margir búa þar."

Jonah kemur úr mikilli strákafjölskyldu. Hann er tvíburi, yngstur af fimm strákum. ,,Já, það er rétt. Ég var tekinn svolítið mikið í gegn þegar ég var yngri!" segir hann.

Fótbolti, trúboðastarf og ferðalög
Jonah er sá eini af bræðrunum sem enn spilar fótbolta og sá eini sem ekki býr enn á æskustöðvunum í Kalí. ,,Á síðustu sex árum hef ég spilað sem atvinnumaður. Fyrstu fjögur árin spilaði ég í United Soccer League sem er einni deild neðar en MLS deildin (Major Soccer League). Síðan stoppaði ég stutt við í MLS og New South Wales Vodafone deildinni í Ástralíu áður en ég kom til ÍBV. Á meðan þessu öllu hefur staðið hef ég ferðast mikið um heiminn og unnið að kristilegu starfi og notað fótboltann til að kynna fólki fyrir Jesú á raunverulegan hátt með því að mæta þörfum fólks. Klikkuðustu staðirnir sem ég hef farið til eru Súdan og Tadjikistan. Andy (Mwesigwa innsk.blm) segir að ég hafi í raun ekki komið á neina staðið fyrr en ég hafi komið til Úganda."

Leikmenn verða að gefa meira af sér í leikjum
Talið berst nú aðeins að fótboltanum hér hjá ÍBV. Hvernig fannst honum leikurinn gegn KA? ,,Þeir sem fylgjast með og styðja liðið vita að sá leikur var ekki góður og við höfum ekki verið að spila nógu vel það sem af er tímabili. Sem betur fer höfum við sterka vörn og góðan markmann sem munu halda okkur inní öllum leikjum. Sérstaklega ef við höldum áfram að halda hreinu, það hefur verið frábært. Í leiknum gegn KA við vorum ekki alveg í sambandi við hvorn annan, eiginlega ekki á sömu blaðsíðunni. Flest okkar hlaup án bolta voru fyrirsjáanleg og fleira í þeim dúr. Þetta er eitthvað sem Heimir þjálfari hefur verið að láta okkur vinna í á æfingum, en við höfum ekki alveg náð að fylgja því eftir í leikjunum. Það er ennþá tími fyrir bætingu og við eigum mikið inni, sem er af hinu góða. Að lokum held ég að allir geti verið sammála um að hver einasti leikmaður þurfi að gefa meira af sér í leikjum. Þá er ég ekki bara að tala um líkamlega, heldur að vera meira einbeittir og nota hausinn meira. Eitt af því sem veitir mér mesta ánægju er að gefa allt í leikinn af virðingu við Guð sem hefur gefið mér þennan möguleika að spila fótbolta."

Jonah skoraði fyrsta mark sitt í sumar gegn KA og tryggði liðinu þar með öll þrjú stigin. Hann var ánægður með markið. ,,Það kom þarna upp óvænt staða sem ég brást einfaldlega við. Það sem ég man við markið er að boltanum var krossað inn frá hægri og hann féll eiginlega bara fyrir fæturna á mér. Þökk sé Guði náði ég að setja hann í hornið. Það var mikill léttir því við vorum ekki að skapa okkur nógu mörg færi í leiknum."

Staðið í nárameiðslum
Þegar Jonah er spurður útí leiktíðina hingað til segist hann ekki vera alveg nógu sáttur og að það gildi um alla aðra. ,,Við verðum ekki sáttir nema við verðum í toppnum á töflunni. Við höfum skýrt markmið og allt annað dugar bara ekki til. Þetta er ákveðið ferli og í augnablikinu sjáum við að það er mikil vinna framundan. Það er þó nægjulegt að vera enn taplausir en jafntefli duga okkur þó ekki mikið."

Nokkur meiðsli hafa hrjáð kappann það sem af er leiktíð og hefur hann ekki alveg getað beitt sér af fullum krafti. ,,Ég tognaði í náranum í æfingaferðinni á Spáni og ég hef ekki alveg náð mér af því. Mér hefur verið sagt að aldurinn sé að færast yfir! Þetta hefur verið svolítið svona að þrauka leik til leiks en aðallega eru þetta bara leiðinleg meiðsli. Mér finnst samt eins og að þetta sé eitthvað að skána núna sem er auðvitað bara frábært."

Geðklofaveður ríkir hérna
Þetta er annað tímabilið sem Jonah spilar með ÍBV. Hvað finnst honum um félagið og Vestmannaeyjar? ,,Það er margt sem ég gæti sagt þar sem ég hef lifað og reynt ýmislegt hér. Ég veit að það er ekkert miðað við ykkur sem eigið rætur hér og vita hvað það er að vera Eyjamenn. Samt sem áður finnst mér ég aðeins vera að blandast inn hérna. Það er gott að vera hérna og mikil áskorun, á stað sem er fallegur á svo margan hátt."

En hvað segir Jonah með framtíðina, ætlar hann að vera hérna á næsta ári, jafnvel lengur?
,,Ég veit ekki alveg hvað framtíðin ber í skauti sér. Biblían segir að maður eigi ekki að lofa neinu. Með öðrum orðum, maður getur eiginlega aldrei lofað neinu um framtíðina því maður veit ekki hvað hún ber í skauti sér. Svo ég verð eiginlega að svara þessu á næsta ári. Stærsti hlutinn fer eiginlega eftir ykkur, bænum. Ég get sagt ykkur að ég nýt þess að vera hérna og elska fólkið hér, staðinn, liðið og finnst ég vera eins og heima hjá mér. Eina sem ég vildi breyta er þetta geðklofaveður sem ríkir hérna en það er aftur á móti kannski eitt af því sem gerir þetta svona sérstakt, er það ekki?" sagði Jonah að lokum og brosti útí annað.