Fótbolti - VISA-bikar karla: Afturelding mætir á Hásteinsvöll á morgun

10.jún.2007  14:41
Næsti leikur liðsins er gegn Aftureldingu í VISA-bikarnum á morgun, mánudag. Leikurinn fer fram á Hásteinsvelli, besta og flottasta velli landsins, og hefst hann klukkan 20:00. Afturelding leikur í annarri deildinni og hefur liðið farið vel af stað í sumar. Þeir hafa leikið fjóra leiki, sigrað tvo, gert eitt jafntefli og tapað einum leik. Tapið átti sér stað í síðasta leik gegn Haukum á heimavelli í uppgjöri toppliða deildarinnar. Afturelding situr því í fjórða sætinu í deildinni af tíu liðum með 10 stig.

Síðustu tvö ár hefur liðinu ekki gengið sem skyldi í 2. deildinni og endaði í sjöunda sæti af tíu liðum bæði árið 2005 og 2006. Í ár er útlit fyrir að þeir hafi styrkt sig töluvert, a.m.k. hafa þeir farið vel af stað. Þeir misstu nýlega sinn efnilegasta mann, Atla Heimisson, sem færði sig um set til okkar í ÍBV en hafa fengið einhvern liðsstyrk í staðinn.

Þjálfari Aftureldingar er Ólafur Ólafsson og í samtali við ÍBV-síðuna sagðist hann hlakka mjög til að koma til Eyja að spila. ,,Það er alltaf gaman að koma til Eyja að spila, engin spurning. Ég hef fylgst ágætlega með liðinu, það hefur farið rólega af stað en vann góðan sigur í síðasta leik á móti Leikni sem ég horfði á. Liðið spilar agaðan varnarleik og sækir hratt. Síðan finnst mér liðið líka sterkt í föstum leikatriðum sem við verðum að passa vel."

Er Ólafur sáttur við byrjun sinna manna í 2. deild? ,,Já, ég er þokkalega sáttur við þessa byrjun. Markmið okkar voru skýr, fara upp um deild og vonandi tekst það. Einnig stefnum við að góðum árangri í bikarnum og ég veit að strákarnir mínir bíða spenntir eftir að fá að kljást við Atla sem nýlega skipti úr Aftureldingu í ÍBV. Það er auðvitað missir af honum en það kemur maður í manns stað eins og alltaf," sagði Ólafur að lokum.

ÍBV-síðan hvetur alla Eyjamenn, unga sem aldna til að leggja leið sína á Hásteinsvöll annað kvöld klukkan 20:00 er flautað verður til leiks. Áfram ÍBV!