Fótbolti - Bjarni Rúnar: Menn voru að hjálpa meira hver öðrum

09.jún.2007  09:45
Bjarni Rúnar, Einars í Goodthaab, skoraði hið mjög svo mikilvæga fyrsta mark í gær gegn Leiknismönnum eftir aðeins tveggja mínútna leik. ÍBV-síðan heyrði í Bjarna strax eftir leik í gærkvöldi

„Þetta var ágætis leikur. Kannski ekki mikið fyrir augað en baráttan var góð, menn voru að leggja sig fram og sigur vannst og það á útivelli. Mjög langt síðan það hefur gerst. Mér finnst vera kominn meiri barátta og vilji í þetta og menn voru að hjálpa hver öðrum . Svo finnst mér vera að koma meiri talandi í þetta hjá okkur en það hefur vantað mikið upp á hann. Erum einnig farnir að nýta færin. Fengum ekki mörg í kvöld en tvö mörk staðreynd.”

Bjarni er búinn að vera svona inn og út úr liðinu í upphafi móts. Hann segist vera ánægður með spilamennsku sína að sumu leyti en alls ekki sáttur að öðru. ,,Maður getur auðvitað alltaf gert betur og maður reynir bara að bæta það sem maður er ekki ánægður með. Ég er auðvitað mjög ánægður með markið hér í kvöld, það hlaut að koma að þessu. Maður er búinn að fá nokkur færin í leikjunum á undan. Við unnum boltann á miðjunni, ég fékk hann útá hægri kant, lék á bakvörðinn og það má segja að ég hafi laumað boltanum í nærhornið með vinstri, ekki oft sem það gerist.”

Hann segist vera samt fyrst og fremst ánægður með sigurinn, þetta hafi verið alger nauðsyn. ,,Þetta varð bara að koma hérna hjá okkur í dag. Það þýðir ekkert að segja endalaust að nóg sé eftir af þessu móti. Við ætlum upp þannig að við verðum bara að vinna þessa leiki. Nú er stíft prógram framundan, 8 leikir á 25 dögum. Við erum vonandi komnir á sigurbraut og ætlum ekkert af henni. Næstu fórnarlömb verða Afturelding á mánudag.”

Aðspurður um hvernig staðan á mannskapnum sé segir Bjarni einhver meiðsli vera í gangi en líklega ekkert alvarlegt. ,,Svo skilst mér að gamall jaxl hafi tekið skóna af sjúkrabekknum og sjáist stöku sinnum á æfingum. Aldrei að vita nema við sjáum Einar jaxl Sigurðsson í ÍBV búningnum að nýju á næstunni,” sagði Bjarni að lokum, en einhvern veginn dregur undirritaður það í efa.