Fótbolti - Bjarni Hólm segir ekkert annað en þrjú stig koma til greina gegn Leikni

06.jún.2007  14:21

Ég náði í skottið á fyrirliða Eyjaliðsins, Bjarna Hólm, þar sem hann var að slá á hinni feykiöflugu Ransomes sláttuvél félagsins úti á Týsvelli, í grenjandi rigningu. Bjarna líst vel á leikinn á föstudaginn gegn Leikni og segir algerlega nauðsynlegt að ná í fyrsta sigurleik sumarsins.

,,Við höfum ekki byrjað alveg nógu vel í mótinu og verðum hreinlega að fara að fá þrjú stig úr einum leik. Það er erfitt að skýra það sem hefur verið að, við höfum spilað vel á köflum í þessum leikjum en líka illa, þetta hefur verið kaflaskipt en í heildina ekki nógu gott. Menn hafa kannski haldið að þessi deild yrði auðveldari en hún í raun er og ef svo er þá er bara að snúa því við, við verðum að leggja okkur 100% fram í hvern leik."

Leiknismenn hafa heldur ekki byrjað vel það sem af er deildinni og enn verr en Eyjamenn. Þeir hafa tapað gegn Grindavík og Þrótti og gert jafntefli við Njarðvík. Bjarni segist ekkert þekkja til Leiknisliðsins. ,,Nei, ég verð nú að viðurkenna það. Ég hef ekki séð neinn leik með þeim eða leikmenn þannig að ég renn eiginlega alveg blint í sjóinn með þá eins og mörg önnur lið í fyrstu deildinni. En Heimir hlýtur að vera búinn að kynna sér þá eitthvað og veikleikana hjá þeim."

Vegna skorts á framherjum hefur Heimir þurft að prófa ýmsa menn frammi og er Bjarni einn af þeim. ,,Já, ég hef spilað töluvert frammi. Það er bara ágætt að spila þá stöðu og bara gaman. Gaman að prófa nýjar stður og jákvætt ef menn geta spilað fleiri en eina stöðu. Það hefur auðvitað helst vantað hjá okkur að skora og ég hef kannski ekki skorað eins mikið og ég hefði viljað, ef miðað er við færin sem ég hef fengið, en það þýðir ekkert að örvænta, ég á eftir að setja þau fleiri í sumar. Einnig er mjög jákvætt að við höfum nú fengið sóknarmann og vonandi að Atli komi með þau mörk með sér sem okkur vantar. Annars skiptir auðvitað engu hverjir skora þessi mörk, bara að fá þessi mörk."

Bjarni var skipaður fyrirliði fyrir fyrsta leik en kom honum það á óvart? ,,Nei í sjálfu sér ekki. Ég og Heimir vorum aðeins búnir að ræða þetta áður og því vissi ég af þessu. Honum fannst fyrirliði þurfa að hafa ákveðna þætti að bera og ég taldi mig hafa þá. Ég hef reyndar verið fyrirliði aðeins áður, hjá Huginn í tveimur leikjum, en ekki svona í líkingu við núna. Þetta er auðvitað ábyrgðarstaða að vera fyrirliði. Það þarf að reyna að hjálpa yngri leikmönnum liðsins sem eru að stíga sín fyrstu skref og reyna að miðla því sem maður hefur sjálfur lært. Svo er ekki síst hlutverk fyrirliðans að reyna að þétta hópinn og mynda stemningu fyrir leiki sem svo vonandi skilar sér í spilamennskunni."

Bjarni starfar í sumar á grasvöllum félagsins, þriðja árið í röð. Honum segist líka mjög vel í því starfi, það sé mjög skemmtilegt og þægilegt. ,,Það er reyndar alger viðbjóður í þessu veðri sem hefur verið undanfarna daga, grenjandi rigningu og roki, en annars er þetta mjög fínt. Kári er mjög blíður yfirmaður og fær vallarstjóri. Það sem mér helst dettur í hug þegar minnst er á hann er setningin: ,,Jæja, fáum okkur kaffi." Þetta er eðaldrengur hann Kári og mjög jákvæður."

Bjarni segist hafa trú á því að ÍBV, Grindavík og Fjölnir fari upp en Víkingur Ólafsvík fari niður. ,,Annars á þetta líklega eftir að verða ótrúlega jöfn deild í sumar og verðum við að hafa okkur alla við ef við ætlum okkur upp," sagði þessi ótrúlega geðþekki og fjallmyndarlegi leikmaður að lokum og hvatti alla Eyjamenn á höfuðborgarsvæðinu að mæta á leikinn á föstudaginn sem verður á gervigrasinu í Breiðholti klukkan 19 og styðja við bakið á liðinu.