Fótbolti - Afsökunarbeiðni

14.maí.2007  10:29

Það leiða atvik átti sér stað eftir leik ÍBV og Þórs á Hásteinsvelli í gær að leikmenn Eyjaliðsins ruku inní búningsklefa án þess að þakka áhorfendum stuðninginn eins og venjan er. Leikmenn liðsins voru auðvitað hundfúlir með sjálfa sig að ná ekki að klára leikinn og nýta þann urmul færa sem liðið fékk í seinni hálfleik. Það var að sjálfsögðu einungis vegna þess sem menn hlupu strax inní búningsklefa en ekki vegna stuðningsmanna liðsins, sem fjölmenntu á Hásteinsvöll í gær.

Við viljum biðja stuðningsmenn ÍBV afsökunar á þessu og vonandi kemur þetta ekki fyrir aftur. Einnig viljum við þakka þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína á Hásteinsvöll í gær og vonandi sjáum við enn fleiri á komandi leikjum.

Fyrir hönd leikmanna meistaraflokks ÍBV:
Bjarni Hólm fyrirliði