Fótbolti - Fótbolti.net spáir í spilinn

12.maí.2007  08:15

Þeir félagar á Fótbolti.net - halda áfram með sína vönduðu og skemmtilegu umfjöllun um íslenska boltann í sumar og spá þeirra fyrir sumarið hefur verið birt og ég leyfi mér að birta hana með góðfúslegu leyfi Magga ritstjóra fótbolta.net... Ég lofaði Magga einnig að reyna að fá einhvern þokkalega hlutlausan og góða n til að skrifa um heimaleiki okkar í sumar - er einhver þarna úti klár í verkið? um er að ræða sjálfboðaliða vinnu sem er öllum holl og góð, e áhugi er fyrir hendi sendið þá tölvupóst á maggi@fotbolti.net Áfram ÍBV alltaf alls staðar og um alla eilífð.

Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í öðru sætinu í þessari spá var ÍBV sem fékk 207 stig af 242 mögulegum eða tveimur stigum meira en Þróttur sem er spáð þriðja sætinu. Kíkjum á umfjöllun okkar um Eyjamenn.

--------------------------------------------------------------------------------

ÍBV
Búningar: Hvít treyja, hvítar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.ibv.is

Eyjamenn eru ákveðnir í að láta fallið úr úrvalsdeildinni frá því í fyrra ekkert á sig fá og stefna rakleiðis upp aftur. Ef spá fyrirliða og þjálfara í deildinni rætist mun þeim takast það ætlunarverk. Liðið hefur nýlega gert styrktarsamning við Toyota og leynir sér ekki að metnaðurinn í Eyjum fyrir því að komast aftur upp í deild meðal þeirra bestu enda vita það allir hve miklu máli fótboltinn skiptir fyrir bæjarfélagið.

ÍBV hefur misst færri leikmenn eftir fallið en flestir bjuggust við. Þó eru leikmenn á borð við Atla Jóhannsson, Sævar Eyjólfsson og hinn danska Bo Henriksen ekki lengur í herbúðum liðsins. Eyjamenn hafa ekki mikið bætt við sig en þó hefur Yngi M. Borgþórsson skipt úr KFS. Fróðlegt verður að sjá hvort hann geti styrkt Eyjaliðið en það fer mikið eftir því hvernig formið á honum verður.

Eyjamenn náðu ágætasta árangri á undirbúningstímabilinu. Þeir hafa fínt baráttulið, hafa spilað góða vörn í vetur og leika einfaldan fótbolta sem er alls ekki neikvætt. Við stjórnvölinn er heimamaður sem hefur sýnt það að hann vill enga lopasokka í sitt lið og sinnir sínu starfi af ástríðu. Hann ætti að geta lamið baráttuandann í liðsmenn sína.

Ef litið er yfir leikmannahóp ÍBV sést að liðið hefur marga lunkna stráka. Anton Bjarnason er ungur leikmaður sem nýstiginn er upp úr 2. flokki og rétt er að mæla með að fólk fylgist með. Hann skoraði tvö mörk fyrir ÍBV í Lengjubikarnum og varð markahæstur sem sýnir að liðinu skortir markaskorara.

Það er þó ljóst að ÍBV á að vera í toppbaráttunni í sumar og ef allt gengur samkvæmt áætlun í Vestmannaeyjum mun liðið leika á ný í Landsbankadeildinni næsta sumar. Leikmenn eins og Páll Hjarðar, Matt Garner, Andrew Mwesigwa og Andri Ólafsson ættu að vera mjög sterkir í þessari deild og ljóst að öll lið verða að eiga mjög góða leiki ef þau ætla að ná að leggja ÍBV.

Styrkleikar: Það þarf ekki að fjölyrða um það að heimavöllurinn er ÍBV mikið vopn. Það er ekki fyrir neina aukvissa að sækja stig á Hásteinsvöll. ÍBV hefur mjög sterka vörn og ágætis markvörð þar fyrir aftan í Hrafni Davíðssyni. Eyjamenn halda nánast sama kjarna frá því í fyrra, hafa baráttuglaða heimamenn og góða erlenda leikmenn. Eyjaandinn mun skipta miklu máli.

Veikleikar: Helsta vandamál ÍBV er markaskorun og vantar liðinu sárlega sóknarmann sem getur skilað inn slatta af mörkum. Bo Henriksen átti að sjá um þá hlið í fyrra en meiddist illa og var það áfall fyrir Eyjamenn. Hann er nú farinn erlendis og verður liðið að treysta á að markaskorun muni dreifast vel. ÍBV skoraði minnst af öllum liðum í sínum riðli Lengjubikarsins, átta mörk í sjö leikjum og þá gerði liðið einnig fæst mörk í Landsbankadeildinni í fyrra. Þá gæti breiddin orðið vandamál í sumar.

Þjálfari: Heimir Hallgrímsson. Tannlæknirinn frá Vestmannaeyjum hefur þjálfað í Vestmannaeyjum í mörg ár og ljóst að hann leggur sig allan fram í þetta verkefni enda heimamaður. Hann þjálfaði áður m.a. kvennalið ÍBV. Um mitt sumar í fyrra tók hann við karlaliðinu eftir að Guðlaugur Baldursson hætti en tókst ekki það erfiða verkefni að halda liðinu uppi. Spennandi verður að sjá hvort honum takist að koma ÍBV aftur í efstu deild en að þessu sinni fær hann að vera með frá byrjun.

Lykilmenn: Páll Þorvaldur Hjarðar, Andrew Mwesigwa, Andri Ólafsson.

Komnir: Yngvi Magnús Borgþórsson frá KFS, Davíð Egilsson frá KFS, Stefán Björn Hauksson frá KFS.

Farnir: Atli Jóhannsson í KR, Ulrik Drost til Danmerkur, Bo Henriksen til Danmerkur, Mark Schulte til Bandaríkjanna, Thomas Lundbye til Danmerkur, Sævar Eyjólfsson í Njarðvík.

--------------------------------------------------------------------------------

Spá fyrirliða og þjálfara:
1. Grindavík 212 stig
2. ÍBV 207 stig
3. Þróttur 205 stig
4. Fjölnir 174 stig
5. Stjarnan 163 stig
6. Fjarðabyggð 149 stig
7. KA 117 stig
8. Þór 106 stig
9. Njarðvík 87 stig

Kær boltakveðja
Magnús Már Einarsson ritstjóri Fótbolti.net