Fótbolti - Gunnar Heiðar til Hannover 96

22.mar.2006  12:03

Fyrrum leikmaður ÍBV, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, skrifaði undir 3 ára samning við Þýska liðið Hannover 96 sem spilar í Bundesligunni. Þessi samningur er kaup Hannovers frá sænska liðinu Halmstad, en þangað fór Gunnar í ágúst árið 2004 frá ÍBV. Gunnar Heiðar er fæddur 1982 og uppalinn í Eyjum. Peyinn átti heima á Illugagötunni og spilaði með yngri flokkum Þórs, svo með ÍBV frá 3.flokki og uppúr. Fyrsti leikur Gunnars var á hans 17 aldursári sem þótti ungt og merki um að efnilegur piltur væri á ferð. Árið 1998 lék hann 3 leiki með U-17 landsliði Íslands og árið 2000 alls 5 leiki og skoraði í þeim 1 mark. Á árunum 2002-2003 spilaði hann 7 leiki með U-21 og árið 2005 spilaði hann 6 leiki með A-landsliði Íslands og setti niður eitt kvikindi þar.

Þegar við komuna til Halmstadt tók hann smá tíma að stimpla sig inn, en í lok móts stóð hann uppi sem markahæðsti leikmaður deildarinnar þrátt fyrir að lið hans væri ekki á meðal þeirra 3 efstu.

Gunnar er einn af mörgum leikmönnum ÍBV sem farið hafa í atvinnumennskuna með góðum árangri. Menn muna einna helst eftir leikmönnum eins og Ásgeiri Sigurvinssyni(spilaði einmitt með Stuttgart í Þýskalandi) og Hermanni Hreiðarssyni sem spilar núna með Chalton í ensku úrvalsdeildinni.

Ljóst er að ungir leikmenn ÍBV geta því farið að dusta rykið af draumum um atvinnumennsku hjá stóru liðunum í Evrópu, enda sýna dæmin að leikmenn ÍBV eru í heimsklassa.

Óskum við Gunnari til hamingju með þennan árangur sem nú hefur náðst og styðjum hann í áframhaldandinu atvinnumennsku, hvar sem er í heiminum.

Biggi Stefáns, fréttaritari ÍBV á höfuðborgarsvæðinu