Bandaríska knattspyrnukonan Allison Patricia Clark hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild ÍBV út næsta keppnistímabil. Ally eins og hún er kölluð er 24 ára miðjumaður sem getur þó leikið í flest öllum sóknarstöðunum einnig.
Á þessari leiktíð hefur Ally verið mögnuð í búningi ÍBV, skorað 13 mörk en einnig komið að öðru 21 marki af þeim 75 sem liðið hefur skorað á tímabilinu í Lengjudeildinni og Mjólkurbikarnum.
Fyrir tímabilið fagnaði knattspyrnuráð komu Ally til félagsins og óskaði þess að hún gæti hjálpað félaginu að ná markmiðum sínum. Markmiði tímabilsins hefur verið náð með sigri í Lengjudeildinni en knattspyrnuráð fagnar því að Ally vilji halda áfram að spila hjá félaginu og hjálpa liðinu að taka skrefið upp í Bestu deildina.