Fótbolti - Magdalena semur til þriggja ára

07.júl.2025  12:45

Knattspyrnukonan unga Magdalena Jónasdóttir hefur skrifað undir sinn fyrsta samning við knattspyrnudeild ÍBV en hún er 17 ára á árinu. Magdalena hefur leikið upp alla yngri flokka ÍBV og hefur leikið þar fjölmargar stöður, nánast allar á vellinum. Nú leikur hún aðallega sem vinstri bakvörður en hún hefur gott vald á spyrnutækni með báðum fótum sem er gríðarlegur kostur.

Magdalena spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki í Lengjubikarnum í fyrra en þá kom hún einnig við sögu í síðasta deildarleiknum á því tímabili. Á þessu ári hefur Magdalena leikið í 12 leikjum, þar af 7 í deild og Mjólkurbikar. Hún leikur einnig lykilhlutverk í sameiginlegu liði ÍBV og Grindavík/Njarðvík í U20 ára liði kvenna.

Knattspyrnuráð hlakkar til áframhaldandi samstarfs við Magdalenu en hún skrifaði undir þriggja ára samning við félagið.