Fótbolti - Felix Örn hjá ÍBV út 2027

11.sep.2024  16:00

Eyjamaðurinn Felix Örn Friðriksson hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild ÍBV til loka árs 2027. Felix hefur einungis leikið fyrir eitt félag á Íslandi, ÍBV, en hann hefur leikið 239 skráða KSÍ leiki og þar af 116 í efstu deild. Felix var á tíma á samningi hjá danska úrvalsdeildarliðinu Vejle en þangað fór hann á miðju sumri 2018.

Þá lék Felix tvo æfingaleiki með A-landsliði Íslands árið 2018 en hann hefur leikið 14 leiki með U21-árs landsliðinu og 10 leiki með öðrum yngri landsliðum Íslands.

Þessi 25 ára bakvörður hefur allt frá því að hann vann sér sæti í meistaraflokksliði ÍBV árið 2016 leikið lykilhlutverk í liðinu en hann lék alla 22 leiki ÍBV í Bestu deild karla á síðustu leiktíð og skoraði í þeim þrjú mörk. Samtals á hann 12 mörk fyrir ÍBV, helming þeirra í efstu deild.

Felix hefur leikið 16 leiki af þeim 21 sem ÍBV hefur leikið í Lengjudeildinni í ár, en liðið situr á toppi deildarinnar þegar ein umferð er eftir. ÍBV heimsækir Leikni í Breiðholtið á laugardag en leikurinn hefst klukkan 14:00, með sigri tryggir ÍBV sæti í efstu deild að ári.

Knattspyrnuráð er ánægt með að halda jafn öflugum leikmanni og Felix er hjá félaginu næstu þrjú árin.