Eyjamaðurinn Víðir Þorvarðarson hefur skrifað undir eins árs samning við knattspyrnudeild ÍBV en hann kemur til með að leika með liðinu í Lengjudeild karla í sumar, næst á dagskrá er þó Lengjubikarinn sem hefst á morgun með leik gegn Valsmönnum í Egilshöllinni.
Víði þekkja allir Eyjamenn en hann hefur leikið fjölmarga leiki með ÍBV í yngri flokkum og meistaraflokki. Samtals á Víðir 295 meistaraflokksleiki fyrir ÍBV, Fylki, Stjörnuna, Þrótt R. og KFS, í þeim hefur hann skorað 65 mörk. Flestir eru leikir hans í efstu deild en þeir eru 140 og þar hefur hann skorað 22 mörk. Víðir var meðal annars hluti af sterku liði ÍBV 2012 sem endaði í 3. sæti Pepsi-deildarinnar.
Reynsla Víðis á eflaust eftir að reynast ÍBV vel í sumar og býður knattspyrnuráð Víði velkominn til félagsins á nýjan leik.