Arnór Íþróttamaður Vestmannaeyja 2023

07.feb.2024  09:15

Elísa íþróttamaður æskunnar 16-19 ára og Agnes Lilja íþróttamaður æskunnar 12-15 ára

 

Í gærkvöldi fór fram viðurkenningarhátíð Íþróttabandalags Vestmannaeyja.

Arnór Viðarsson handknattleiksmaður var útnefndur Íþróttamaður Vestmannaeyja 2023, Elísa Elíasdóttir íþróttamaður æskunnar 16-19 ára og Agnes Lilja Styrmisdóttir íþróttamaður æskunnar 12-15 ára. ÍBV Íþróttafélag óskar þessum glæsilegu fulltrúum félagsins innilega til hamingju!

 

Arnór stóð sig frábærlega á árinu, var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði ÍBV. Hann sýndi ótrúlegan þroska í háspennu einvígi í úrslitum Íslandsmótsins. Arnór lék einnig stórt hlutverk með U-21 árs landsliði Íslands á HM en þeir enduðu í 3. sæti mótsins. Arnór er mögnuð fyrirmynd fyrir unga iðkendur og hefur síðustu ár verið að þjálfa yngri flokka ÍBV með frábærum árangri.

Elísa hefur átt magnað tímabil með meistaraflokk kvenna í handknattleik þar sem hún var lykilmaður hjá deildar- og bikarmeisturum ÍBV. Ekki má gleyma að Elísa og stelpurnar fóru einnig alla leið í Íslandsmótinu. Elísa stóð sig frábærlega á EM með U-19 ára landsliðinu. Hún kórónaði svo sitt ár með því að vera valin í lokahóp A-landsliðs kvenna til að taka þátt á HM í Noregi. Elísa er algerlega mögnuð fyrirmynd fyrir unga iðkendur og hefur sýnt ótrúlegan þroska innan sem utan vallar þrátt fyrir ungan aldur.

Agnes Lilja hefur átt virkilega góðu gengi að fagna á árinu. Hún er einstaklega duglegur leikmaður sem æfir stíft bæði handknattleik og knattspyrnu. Agnes lék landsleiki á þessu ári fyrir U-15 ára landslið kvenna í handbolta gegn Færeyjum. Agnes sýndi þar hvers hún er megnug og skoraði fimm mörk í þessum leikjum. Agnes var einnig á síðasta ári kölluð til æfinga hjá U-16 ára landsliði kvenna í handbolta. Þá hefur Agnes stigið sín fyrstu skref í meistaraflokk þrátt fyrir ungan aldur.

 

Landsliðsfólkið okkar var heiðrað, en ÍBV átti 18 leikmenn sem spiluðu landsleiki á árinu og 4 þjálfara sem stýrðu landsliðum. Ásamt þeim voru Íslandsmeistarar ÍBV í handbolta karla og bikarmeistarar ÍBV í handbolta kvenna heiðruð.

Íþróttabandalag Vestmannaeyja heiðraði líka nokkra einstaklinga fyrir þeirra störf í þágu íþrótta í Eyjum með gull og silfurmerki auk þess sem Eyjólfur Guðjónsson fékk sérstaka viðurkenningu fyrir sitt framlag í þágu íþróttanna, frændi hans Jóhann Jónsson tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. Þeir sem hlutu silfurmerki að þessu sinni voru: Sigríður Inga Kristmannsdóttir, Laufey Grétarsdóttir, Edda Daníelsdóttir, Ólafía Birgisdóttir, Pálmi Harðarson, Kristleifur Guðmundsson, Jakob Möller og Sigursveinn Þórðarson. Gullmerki hlutu Ingibjörg Jónsdóttir og Arnar Richardsson.

Á myndunum eru þeir félagsmenn ÍBV sem voru heiðraðir í gær ásamt fleirum.