ÍBV hefur á síðustu vikum borist liðsstyrkur fyrir lokakaflann í Bestu deild kvenna í knattspyrnu en liðið stendur í ströngu þar. Leiknar verða 18 umferðir áður en deildinni verður skipt upp í efri og neðri helming, í þeim efri eru leiknar fimm umferðir en þrjár í neðri. ÍBV er sem stendur í 8. sæti deildarinnar með 17 stig.
Leikmennirnir sem um ræðir koma úr ýmsum áttum og léku allar með liðinu í gær í sigrinum gegn Keflavík. Chloe Hennigan kemur frá írska liðinu Treaty United sem leikur í efstu deild þar í landi. Hún hafði leikið vel með írska liðinu á tímabilinu og spilað alla leiki deildarinnar áður en gert var hlé á deildinni vegna HM, þar sem Írar voru með lið. Hún er 22 ára varnarmaður.
Hinir tveir leikmennirnir eru Vestmannaeyingar en Helena Hekla Hlynsdóttir kom til ÍBV frá Selfossi þar sem hún hefur leikið frá árinu 2017 fyrir utan tímabilið 2018 þar sem hún lék með ÍBV, við bjóðum hana því velkomna aftur. Samtals átti Hekla 15 leiki í efstu deild fyrir vistaskiptin en hún lék sinn 16. í gær þar sem hún átti flottan leik gegn Keflvíkingum. Hún getur leikið þó nokkrar stöður á vellinum en lék í hægri bakverði í gær.
Þá hefur Sigríður Lára Garðarsdóttir ákveðið að ljúka tímabilinu með ÍBV en hún hætti fótboltaiðkun fyrr á árinu, það eru mjög ánægjulegar fréttir fyrir ÍBV og Bestu deildina að Sísí hafi ákveðið að taka skóna af hillunni til að hjálpa ÍBV á lokasprettinum í deildinni. Sísí þarf varla að kynna en hún er einn besti leikmaður sem ÍBV hefur alið af sér, hún á 20 A-landsleiki og 297 leiki á vegum KSÍ, þar af 167 í efstu deild kvenna. Velkomin aftur Sísí!