Fótbolti - Arnar Breki með U21 til Skotlands

09.nóv.2022  13:57

Arnar Breki Gunnarsson, sem sló í gegn með ÍBV í Bestu deildinni í sumar, hefur verið valinn í lokahóp U21 árs landsliðsins sem heldur til Skotlands í næstu viku og spilar vináttuleik við skoska U21 árs landsliðið.

Arnar Breki hefur réttilega fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína í sumar en hann hefur verið mjög góður í fremstu víglínu liðsins hvort sem það er í að hefja varnarleik liðsins eða að koma að mörkum. 

Ásamt Arnari eru í hópnum margir leikmenn sem leika með erlendum félagsliðum á borð við IFK Gautaborg, Rosenborg, CF Montreal, Örebro og NEC Nijmegen svo einhver séu nefnd.

Leikurinn fer fram þann 17. nóvember og hefst kl. 19:00, hann verður eflaust sýndur í beinni á netinu og munum við auglýsa það síðar á Facebook síðunni ÍBV Knattspyrna.