ÍBV-Íþróttafélag og Nike á Íslandi hafa gert með sér samstarfssamning til næstu fjögurra ára. Öll lið á vegum knattspyrnu og handknattleiksdeildar ÍBV munu því leika í fatnaði frá Nike a.m.k. næstu fjögur tímabil.
Meistaraflokkslið félagsins í handbolta munu ríða á vaðið og spila í Nike í upphafi tímabilsins og um áramótin fara knattspyrnudeildin og yngri flokkar að fullu af stað í nýtt vörumerki.
Haraldur Pálsson framkvæmdastjóri ÍBV:
"Við erum gríðarlega spennt fyrir þessu samstarfi með Nike á Íslandi, það mun vafalaust setja mark sitt á starfsemina að fá jafn flott og öflugt vörumerki og Nike til liðs við okkur. Hér eru tvö sterk vörumerki að leiða saman hesta sína og það verður spennandi að sjá hvað það kunni að bera í skauti sér. Það er mikil tilhlökkun hjá báðum aðilum fyrir komandi samstarfi."
ÍBV hefur leikið í Hummel frá árinu 2003 og er því við hæfi að nota tækifærið og þakka Hummel fyrir farsælt samstarf síðustu tvo áratugina.
H-verslun sem er í eigu Nike á Íslandi, mun sjá um að þjónusta okkar iðkendur og verður með sér svæði á sinni vefverslun, þar sem hægt verður að ganga frá pöntunum og merkingum á búninga sem og fyrir annan ÍBV/Nike varning. Boðið verður uppá reglulega mátun í Týsheimilinu og mun sala á ÍBV treyjum fyrir yngri flokka félagsins hefjast hjá H-verslun von bráðar.