Simbabveski landsliðsmaðurinn Kundai Benyu hefur skrifað undir samning við ÍBV og mun koma til með að leika með liðinu út tímabilið 2023. Kundai kemur til liðsins frá Vestra þar sem hann lék við góðan orðstír á síðustu leiktíð, hann er 24 ára gamall miðjumaður.
Þrátt fyrir að leika með simbabveska landsliðinu þá er Kundai fæddur og uppalinn á Englandi en hann hefur að mestu leikið með liðum í ensku deildunum, má þar nefna Ipswich og Charlton meðal liða sem hann hefur verið á mála hjá. Hann var einnig leikmaður Helsingborg á sama tíma og Andri Rúnar Bjarnason, ásamt því að vera þrjú tímabil á mála hjá skoska stórliðinu Celtic.
Kundai hefur leikið fimm leiki fyrir simbabveska landsliðið og er hann mjög spenntur að komast til Vestmannaeyja og hefja leik með liðinu í þeirri Bestu.
ÍBV vill bjóða Kundai velkominn til liðsins og hlökkum við mikið til samstarfsins.