Það er með mikilli ánægju sem ÍBV tilkynnir að þær Kristín Erna Sigurlásdóttir og Þórhildur Ólafsdóttir hafa skrifað undir samninga við félagið. Kristín og Þórhildur hafa báðar alist upp innan félagsins en þær hafa einnig leikið fjölmarga leiki fyrir meistaraflokk kvenna hjá ÍBV.
Þórhildur spilaði sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk kvenna árið 2005 en hún hefur síðan þá leikið 144 leiki fyrir hjá ÍBV. Hún hefur einnig leikið með Þór/KA og Fylki en hún hefur mikla reynslu. Síðast lék Þórhildur með Fylki árið 2018 en hún lék síðast fyrir ÍBV 2015.
Kristín Erna spilaði sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk kvenna árið 2007 og hefur síðan þá leikið 232 leiki fyrir félagið, líkt og Þórhildur hefur hún mikla reynslu en hún hefur reynt fyrir sér hjá Fylki, KR og Víkingi með góðum árangri. Síðast lék Kristín fyrir ÍBV árið 2019.
Þórhildur leikur á miðjunni en Kristín er sóknarmaður og hafa þær báðar leikið frábærlega í Lengjubikarnum það sem af er. ÍBV gerir miklar væntingar til leikmannanna og koma þær til með að styrkja leikmannahópinn verulega.