Fótbolti - Auður valin í A-landslið kvenna - Ragna og Helena í U19

01.jún.2021  15:40

Auður Sveinbjörnsdóttir Scehving hefur verið valin í A-landslið kvenna fyrir komandi æfingaleiki gegn Írlandi, sem leiknir verða á Laugardalsvelli 11. og 15. júní. Auður hefur leikið frábærlega á leiktíðinni fyrir ÍBV. 

Auður er ein þriggja markvarða í liðinu en þetta er í fyrsta skiptið sem Auður fær kallið í A-landslið kvenna. Eyjakonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir er einnig í hópnum.

Ragna Sara Magnúsdóttir og Helena Jónsdóttir voru þá valdar í U19-landslið kvenna en liðið æfir í næstu viku. Ragna og Helena hafa leikið virkilega vel með ÍBV á leiktíðinni og hafa spilað stórt hlutverk í liðinu.