Sunnudaginn nk. fer ÍBV í stærsta einstaka leik tímabilsins.
Karla liðið ferðast til borgarinnar og mætir KRingum á Alvogenvellinum í Vesturbæ Reykjavíkur.
Leikurinn hefst klukkan 14:00, en fyrir leikinn er KR með 27 stig og sitja í fjórða sæti.
ÍBV er í 8 sæti með 22 stig og geta nálgast KR úr 5 stiga mun í 2 stiga mun, með sigri á sunnudag.
Breiðablik og Stjarnan spila til úrslita í bikarkeppninni þetta árið og eru nánast bæði örugg í amk. þriðja sæti deildarinnar. Því er ljóst að fjórða sætið mun gefa evrópusæti þetta árið.
Aðeins 5 leikir eru eftir af tímabilinu. Takist ÍBV að krækja í sigur á sunnudaginn, þá gætu 2-3 sigrar í seinustu 4 leikjum nægt til að enda tímabilið í fjórða sæti. KRingar eiga eftir að mæta FHingum á útivelli og telur það drjúgt fyrir ÍBV að sá leikur sé eftir.
Þrátt fyrir brösuga byrjun á tímabilinu og svekkjandi úrslit á Þjóðhátíð, þá er liðið að stíga upp á þann stall sem það á að vera á. Afgerandi sigur gegn FH á útivelli og mikilvægur sigur gegn Keflavík í síðustu umferð sýnir að liðinu er alvara í sínum aðgerðum. Með sigri er pepsideildarsætið 2019 í höfn og endirinn á tímabilinu verður opinn og skemmtilegur.
Mikinn stuðning þarf á sunnudaginn
Nú þegar svona stór leikur fer fram á KRvelli, þurfa leikmenn að finna fyrir miklum stuðningi á pöllunum. Að því tilefni hefur VSV ákveðið að bjóða öllum fría ferð á leikinn og skráning hafin hér.
Tvær 50 sæta rútur verða fengnar í verkefnið. Við hvetjum alla stuðningsmenn til að nýta sér þessa sætaferð sem VSV býður og fara eina skemmtilega stuðningsmannaferð. Ekki þarf að vera í neinum klúbb til að skrá sig, allir eru velkomnir.
Komum fagnandi
Áfram ÍBV