Sigurður Ragnar Eyjólfsson óskaði í vikunni eftir að láta af störfum sem þjálfari ÍBV vegna fjölskylduaðstæðna og ÍBV hefur orðið við þeirri beiðni hans.
Fyrir rétt tæpu ári skrifaði Sigurður Ragnar undir 3 ára samning við knattspyrnudeild ÍBV um þjálfun á meistaraflokki karla. Hefur hann stýrt ÍBV á liðnu keppnistímabili, fór með ÍBV í undanúrslit Borgunarbikarsins og skilur við liðið áfram á meðal þeirra bestu í Pepsí deildinni.
Oft er það þannig í lífinu að vinna og fjölskyldulíf ganga ekki fullkomlega upp. Fjölskylduaðstæður Sigurðar Ragnars eru þannig að eiginkona hans starfar á höfuðborgarsvæðinu og hann í Vestmannaeyjum. Þá fjölgaði í fjölskyldunni á árinu þegar þau eignuðust sitt annað barn. Það hefur því verið mikið púsluspil fyrir Sigurð Ragnar að samræma vinnuna og fjölskyldulífið.
Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, segir að allir þeir sem koma að knattspyrnumálum í Vestmanneyjum muni sakna Sigurðar Ragnars. „Við skiljum hans aðstæður mjög vel og þökkum honum fyrir góð störf á vettvangi ÍBV. Þá óskum við Sigurði Ragnari velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann mun taka sér fyrir hendur. Sigurður Ragnar hefur lagt sitt á vogarskálarnar við að efla knattspyrnuna í Eyjum. Hann lét ekki aðeins að sér kveða hjá meistaraflokki heldur miðlaði af reynslu sinni hjá yngri flokkum félagsins. Sigurður Ragnar er mikill fagmaður og góður þjálfari. Næstu skref hjá okkur eru að hefja leit að nýjum þjálfara. Við munum gefa okkur góðan tíma til að finna rétta einstaklinginn í starfið,“ segir hann.
Sigurður Ragnar segist hafa átt góðan tíma hjá ÍBV og hafi hlotið dýrmæta reynslu sem þjálfari. „Ég er þakklátur ÍBV fyrir það tækifæri og traust sem félagið hefur sýnt mér. Því miður sé ég mér ekki fært að þjálfa ÍBV áfram því það hefði þýtt of mikla fjarveru frá fjölskyldunni minni. Ég hef samt mikinn metnað til að halda áfram þjálfun enda er þjálfun ástríða mín í lífinu og ég tel að ég hafi mikið fram að færa sem þjálfari. Vonandi opnast ný tækifæri fyrir mig í þjálfun sem fyrst við að þessar dyr lokast en þá nær fjölskyldunni. Ég sendi mínar bestu kveðjur til allra þeirra sem ég hef kynnst í Eyjum. Ég óska leikmönnum, knattspyrnuráði, þjálfurum og síðast en ekki síst stuðningsmönnum liðsins góðs gengis. Með samstilltu átaki þeirra allra er framtíðin björt hjá ÍBV”.
Knattspyrnudeild ÍBV mun á næstu dögum og vikum vinna að því að finna nýjan þjálfara fyrir meistaraflokk karla.
Áfram ÍBV!
Knattspyrnudeild ÍBV